143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:27]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að taka þetta málefni hér til umræðu og fyrir þeirra góðu orð. Reynsla okkar Reykvíkinga af starfi Skákakademíunnar er góð. Í Reykjavík hefur markvisst verið unnið að skákkennslu í grunnskólum og leikskólum í nokkur ár með mjög góðum árangri. Nú er skák kennd í flestöllum grunnskólum Reykjavíkur og ég tek undir orð þingmanna hér á undan, skákin er ekki bara íþrótt, skákin er list, skákin er sköpun og það hefur sýnt sig og kemur ágætlega fram í skýrslunni, sem er mjög vönduð og skemmtileg lesning, að skákíþróttin býður upp á æfingu og þroskandi aðferðafræði sem hentar ekki síst þeim sem minna mega sín í skólastarfi.