143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að við erum að koma út úr erfiðum tímum. Menntakerfið hefur á undanförnum árum að sjálfsögðu ekki farið varhluta af því þó að menn hafi reynt að hlífa því við niðurskurði umfram flesta aðra málaflokka nema ef vera skyldu heilbrigðismálin. Engu að síður er mikilvægt að kyrkja ekki og stöðva ekki framþróun á sviði sem þessu. Eitt af því ánægjulega sem gerðist á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir alla erfiðleika var að það náðust áfangar í að bæta aðgengi fólks að framhaldsnámi í sinni heimabyggð. Þar ber auðvitað hæst að á sjálfum botni kreppunnar var staðið við áform um að hefja starfsemi framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, á Tröllaskaga, fyrir byggðirnar á Siglufirði, í Ólafsfirði, á Dalvík og nágrenni. Er skemmst frá því að segja að uppbygging þess framhaldsskóla hefur gengið vonum framar nánast á allan hátt, aðsókn verið góð og starfsemin blómleg. Hann skiptir miklu máli fyrir þessi byggðarlög.

Fleira var gert. Áfram var stutt við framhaldsdeild á Patreksfirði sem komið var á í samstarfi við skóla í Grundarfirði. Á Þórshöfn komst á legg og hefur núna verið starfrækt um nokkurra ára skeið framhaldsdeild í góðu samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum og sem hluti af náminu þar. Á Hvammstanga er núna framhaldsdeild á öðru ári. Henni var komið af stað með fjárveitingum úr sóknaráætlun. Núna eru, ef ég fer rétt með, sams konar framhaldsdeildir komnar í gang á Hólmavík og Blönduósi, gott ef ekki á fleiri stöðum. Þetta breytir miklu fyrir aðstæður í þessum byggðum.

Í góðu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa fleiri byggðarlög undirbúið hið sama. Ber þar fyrst að nefna Vopnafjörð sem vissi ekki betur en að fyrir lægi ákvörðun ráðuneytisins um að styðja við bakið á Vopnfirðingum um að hefja starfsemi framhaldsdeildar haustið 2014, þ.e. næsta haust. Allur undirbúningur heimamanna hefur miðað við það og þess vegna kom þeim í opna skjöldu að fá synjun frá ráðuneytinu um fjárstuðning við það verkefni.

Fleiri hafa verið með þetta í undirbúningi, eins og Búðardalur. Fræðslusetur á Kirkjubæjarklaustri hefur hafið störf og átti að fá inni í Kirkjubæjarstofu. Þannig mætti áfram telja. Þess vegna vekur það undrun svo ekki sé meira sagt og mikil vonbrigði ef það á að verða að til dæmis Vopnfirðingum verði synjað um fjárstuðning til að hefja starfsemina næsta haust. Er þó ekki farið fram á meira en 5,2 eða 5,5 milljónir til þess.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hverju sætir þetta í ljósi þess að undirbúningurinn var í góðu samstarfi við ráðuneytið?

Í öðru lagi: Hver er stefna þessarar nýju ríkisstjórnar varðandi það að bæta aðgengi fólks að framhaldsnámi í heimabyggð? Á starfræksla jafnvel þeirra framhaldsdeilda sem komnar eru af stað, eins og á Hvammstanga, Blönduósi og Hólmavík, virkilega að vera í óvissu vegna þess að ekki sé víst að veittar verði fjárveitingar til þeirra á næsta ári?