143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta mál fyrir og spyrja um framhaldsdeildina á Vopnafirði sem þeir hafa sóst mjög eftir. Sveitarstjórnarmenn á Vopnafirði ræddu þetta í kjördæmavikunni sem eitt af sínum aðalmálum. Hér var rætt um það stórátak sem síðasta hæstv. ríkisstjórn gerði í menntamálum, eins og menntaskólann á Tröllaskaga.

Það má í raun og veru segja að það sem rætt var um á góðæristímum á vegum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna og var í þá tíð ekki komið í verk komum við í framkvæmd á erfiðleikatímum eða krepputímum þjóðarinnar. Því vil ég nota tækifærið og hvetja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að beita sér fyrir því að fjárveiting til reksturs framhaldsskóladeildar á Vopnafirði verði tryggð í fjárlögum næsta árs. Miðað við hvað það kostar á heilu ári, heilsársrekstur, sýnist mér þurfa 2–3 milljónir á næstu fjárlög.

Virðulegi forseti. Það er reynslan að framhaldsdeildin á Þórshöfn í samstarfi við (Forseti hringir.) Laugaskóla er góð. Hana þurfum við að þróa og koma á fleiri staði, eins og til dæmis Vopnafjörð.