143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma hingað upp til að undirstrika það hve gífurlegt byggðamál það er að efla framhaldsdeildirnar og koma að dreifnámi í byggðum landsins. Það stóð upp úr hjá sveitarstjórnarmönnum sem við hittum í kjördæmaviku hvað átakið sem hefur verið á undanförnum árum, að koma á dreifinámi í byggðarlögum sem höfðu ekki látið sig dreyma um að það gæti gerst, skipti miklu máli fyrir búsetu fólks og líka þá nemendur sem höfðu flosnað upp úr námi og voru að byrja aftur. Sveitarstjórnarmenn sem við hittum lögðu á það mikla áherslu að við þingmenn þvert á flokka legðumst á sveif með þeim og héldum því gangandi að ekki yrði rof í þessari uppbyggingu því að dreifnám væri það stórt byggðamál og skipti þessi svæði gífurlega miklu máli.

Þess vegna treysti ég því að hæstv. menntamálaráðherra standi með byggðunum og haldi áfram að efla dreifnám sem er grundvöllur þess að margar fjölskyldur vilja áfram búa úti á landi.