143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil endilega koma inn í þessa umræðu. Ég ræddi þetta mál hér í nóvember 2012, minnir mig. Þá hafði aðalfundur foreldrafélags Vopnafjarðarskóla ályktað um það og hvatt til þess að þetta kæmist á fjárlög haustið 2013 og þá var þetta sett inn þannig að það hæfist á næsta ári.

Þetta hefur verið mikið rætt eins og hér hefur komið fram. Fyrir fjárlaganefnd hafa komið sveitarstjórnir sem hafa áhyggjur af þeim verkefnum sem nú þegar hafa verið hafin og mér heyrist hljóðið í mönnum ekki vera öðruvísi en að vilji sé til að reyna að finna fjármagn. Það kostar u.þ.b. 10 milljónir að reka svona deild, og það er auðvitað bara skiptimynt í stóra samhenginu þó að þær geti orðið margar.

Mig langar, virðulegi forseti, að vitna í viðtal við Þórunni Egilsdóttur, þáverandi oddvita og verkefnisstjóra Austurbrúar í Kaupvangi og núverandi þingmann, þar sem fram kemur að samstarf hafi verið við Menntaskólann á Egilsstöðum um að opna (Forseti hringir.) framhaldsskóladeildina og að það sé komið á óskalista. Ég trúi því ekki öðru en að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn standi saman í því að koma þessu máli áfram.