143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það þyki metnaðarleysi að ráðast ekki í neitt nýtt. En metnaður minn fólst í því að skera ekki áfram niður til reksturs framhaldsskólans á Íslandi. Ég sat fundi með skólameisturum þar sem komu fram verulegar áhyggjur þeirra af því að á undanförnum árum hafi verið skorið mjög harkalega niður til reksturs framhaldsskólans á sama tíma og ýmis ný verkefni fóru af stað. Menn höfðu af því áhyggjur og sögðu: Hvernig í ósköpunum eigum við að reka framhaldsskólastigið ef það er alltaf verið að draga úr fjármununum til framhaldsskólans, reksturs hans, en á sama tíma virðast vera fjármunir til þess að fara af stað með ýmis ný verkefni? Það er sú forgangsröðun sem ég geri athugasemd við og breytti vinnulaginu hvað það varðar þannig að — og í því felst metnaðurinn, virðulegi forseti, — ekki yrði skorið meira niður til framhaldsskólastigsins.

Nú kann að vera að einhverjum finnist það vera metnaðarleysi. Þá erum við ósammála um það en þarna setti ég mína áherslu. Það þýðir ekki að ekki sé hægt þegar horft er til framtíðar að halda áfram með þessa uppbyggingu. Ég held að ágæt og þverpólitísk sátt sé um það í þingsalnum hvernig eigi að standa að henni, að við eigum að reyna að koma hlutunum þannig fyrir að sem flestir geti stundað nám sem lengst í sinni heimabyggð. Það er mjög æskileg og rétt stefna.

Hér var spurt um Hvammstanga og ég vil vekja athygli á því að undir liðnum 02-319 1.11 Sameiginleg þjónusta, í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að tímabundið framlag vegna framhaldsdeildarinnar á Hvammstanga hækki um 3,4 millj. kr. en á móti falli niður 2,8 millj. kr. tímabundið framlag sem veitt var af sama tilefni. Þetta var leiðréttingarfærsla sem sýnir auðvitað að þarna eru settir peningar til þessa verkefnis. Það er alveg rétt sem hefur verið sagt og bent á að ný (Forseti hringir.) verkefni hafa þurft að bíða, en það er ekki þar með sagt að þau hafi verið slegin af eða að aldrei verði af þeim því að við erum með þær áherslur sem ég hef lýst hér.