143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

hámarksskipunartími forstöðumanna menningarstofnana.

56. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu hans í því hvort eðlilegt sé að setja einhvers konar hámark á skipunartíma forstöðumanna menningarstofnana. Aðdragandi fyrirspurnarinnar er sá að það var í það minnsta mitt mat — eftir að hafa kynnt mér innviði menningarmála á landinu, þar sem víðast hvar er ein opinber stofnun á hverju sviði — að í raun væri ekki eðlilegt að hægt væri að hafa ótímabundinn skipunartíma. Þó að embættismenn ríkisins séu skipaðir til fimm ára í senn er oft svo að ef viðkomandi embættismenn sækjast eftir starfi sínu áfram, og engin sérstök óánægja er með störf þeirra, eru þeir endurskipaðir. Það kann líka að vera eðlilegt að þannig sé það til þess að viðhalda stöðugleika í hinni opinberu stjórnsýslu. En þá má spyrja sig að því, þegar um er að ræða stofnanir sem eru einar á sínu sviði, hvort ekki sé eðlilegt að hafa einhverja sérreglu um það þannig að það sé til að mynda ekki einhver einn aðili ráðandi um Þjóðleikhúsið eða Listasafn Íslands eða aðrar slíkar stofnanir sem eru í raun í samkeppni við fáar eða engar aðrar stofnanir.

Það var niðurstaða mín á sínum tíma, þegar ég lagði það til í nýjum lögum um Ríkisútvarpið, að settur yrði hámarksskipunartími á útvarpsstjóra því að Ríkisútvarpið er tvímælalaust ein af þessum stóru menningarstofnunum sem við eigum. Síðan var það lagt til, í frumvarpi til laga um sviðslistir, sem ekki náðist að ljúka vinnslu við á síðasta þingi, að sama gilti um skipunartíma þjóðleikhússtjóra, þ.e. að hann væri skipaður til fimm ára og heimilt að endurráða hann einu sinni.

Ég hef áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í þessum efnum — nú tók ég ekki eftir því en mig minnir að minnsta kosti að sviðslistalög séu ekki á þingmálaskrá hæstv. ráðherra; hann leiðréttir mig þá hér á eftir ef svo er — þ.e. hver almenn afstaða hans er, hvort hann telur eðlilegt að þetta sé skoðað sérstaklega í tengslum við menningarstofnanir. Þetta er ekki endilega mál sem hefur verið mikið rætt hér í sölum þingsins en kannski er samt sem áður ástæða til þess. Því langar mig fyrst og fremst að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi mótað sér afstöðu og hvort hann telur eðlilegt að einhver slík hámarksregla gildi almennt um menningarstofnanir.