143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er stóralvarlegt mál ef fólk þarf að lýsa sig gjaldþrota. Engu að síður er það stundum svo að fólk sér ekki önnur úrræði. Í desember 2010 var hér breytt til bráðabirgða í fjögur ár lögum um gjaldþrot til að gera fólki það öllu bærilegra ef það sá ekki önnur úrræði en að fara í gjaldþrot og var fyrningarfrestur fyrir einstaklinga styttur í tvö ár.

Ýmislegt bendir núna til þess — ég veit ekki hvort ég á að segja að það hafi ekki skilað árangri en gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað. Ég ætla ekki að gleðjast yfir því en segi að það sé kannski vísbending um að þetta hafi tekist á einhvern hátt. Á hinn bóginn hefur það líka gerst að gífurlega, og miklu meira, hefur fjölgað á vanskilaskrá og þar getur fólkið hangið inni, ekki á vanskilaskránni sjálfri heldur hanga kröfur yfir fólki í allt að tíu ár.

Það kostar 250 þúsund fyrir einstakling, hann þarf að borga það í tryggingu ef hann biður sjálfur um að fara í gjaldþrot. Ef maður á enga peninga eru 250 þúsund alveg heilmikið. Mig langar því að spyrja hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar hvort hún væri tilbúin að beita sér fyrir því að nefndin skoðaði þetta mál og hvort hægt sé að breyta lögum um aukatekjur ríkissjóðs þannig að sú trygging falli niður.

Virðulegi forseti. Ég veit það auðvitað að þingmaður getur borið þetta fram en þótt ég sé bjartsýn kona held ég enn að það hefði meiri vigt ef nefndin gerði það heldur en einn þingmaður með þingmenn á bak við sig. Mig langar því að spyrja hv. formann nefndarinnar hvort hún sé tilbúin að beita sér fyrir því.