143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Forvígismenn fyrrum ríkisstjórnar fara mikinn þessa dagana í viðtölum og útgáfum minningabóka og tilgangurinn er eflaust að réttlæta störf sín og ekki síst varðandi landsdóm. Ýmislegt er dregið fram þar úr skúmaskotum. Forkastanlegust er þó aðför þeirra að forseta lýðveldisins.

Það er ef til vill skiljanlegt að þeim svíði að hafa ekki komið fram þeim vilja sínum að láta undan Bretum í Icesave-málinu en þar bjargaði frumkvæði forseta Íslands þjóðinni frá verulegu tjóni sem og grasrótarsamtök gegn Icesave. Þjóðin var nefnilega á sama máli og forsetinn. Væri ekki frekar ástæða til að þakka honum fyrir árvekni og djörfung?

Það er ekki lýðræðinu eða stjórnskipun vorri til framdráttar að ráðast á forseta Íslands með þessum hætti né bætir það stjórnmálaumræðuna í landinu. Á góðum stundum tala og töluðu þessir stjórnmálamenn um nauðsyn þess að gera stjórnmálaumræðu hófstilltari, málefnalegri og opnari. Öllum þeim gildum er kastað fyrir róða til að koma höggi á forseta Íslands.