143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú er nýafstaðið þing Norðurlandaráðs og ég verð að segja að við upplifðum að íslenska sendinefndin vakti athygli fyrir framgöngu sína og það er ekki hvað síst því að þakka að við tókum þá ákvörðun að nota okkar eigið tungumál í samskiptum á þinginu. Við töluðum sem sagt íslensku og það þýddi að túlka varð það sem við sögðum og við fengum túlkun til baka. Að mínu mati skiptir þetta verulegu máli og brýtur ákveðið blað í samskiptum okkar á Norðurlandaráðsþingi hvað varðar í rauninni það hvað við gerum okkur gildandi. Við skiljum öll miklu betur það sem fram fer og við komum, sem er ekki síðra, betur frá okkur því sem við viljum leggja inn í þann sameiginlega banka sem samstarf okkar norrænu þjóðanna er. Þarna er um að ræða 25 milljóna manna markað. Þetta er vettvangur sem skiptir virkilega máli að beita sér á og þá skiptir líka máli að vita nákvæmlega hvað við segjum og hvað er verið að segja við okkur.

Ég tel að við eigum að gera það að stefnu okkar að nota okkar tungumál betur og láta sérfræðinga, jafnvel þótt við séum góð í tilteknum tungumálum, um að túlka fyrir okkur. Þess utan skiptir náttúrlega verulegu máli fyrir sjálfsmynd okkar og virðingu fyrir málinu og menningararfinum að við notum okkar eigið tungumál.