143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Góð heilbrigðisþjónusta er okkur öllum mikilvæg, hvort sem við búum á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Umræða um Landspítalann hefur verið áberandi undanfarnar vikur og undrar mig það ekki því að aðbúnaður starfsfólks og sjúklinga er bágur og tækjakostur kominn til ára sinna. Við þessu ástandi þarf vissulega að bregðast og ég vonast til þess að það verði gert sem allra fyrst.

Í umræðunni megum við samt ekki gleyma mikilvægi heilbrigðisstofnana úti á landi en til stendur að sameina og skera niður. Mér finnst það miður og ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra endurskoði áform um niðurskurð og sameiningar því að þessar stofnanir úti á landi eru byggðunum nauðsynlegar og veita þeim sem þar búa öryggi.

Ég mótmæli sameiningaráformum heilbrigðisstofnana úti á landi þar sem víða eru miklar fjarlægðir á milli stofnana og því litlar líkur á að fagleg samvinna náist. Ég get tekið sem dæmi að vegalengdin milli heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði og heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði er 500–600 kílómetrar í átta til níu mánuði á ári. Samkvæmt fjárlögum stendur til að sameina þessar stofnanir.

Í síðustu viku var ég það heppin að sitja baráttufund á Patreksfirði þar sem sameiningaráformum var mótmælt. Fólk spurði sig á fundinum: Af hverju þurfum við eiginlega að halda baráttufund til að halda úti grunnþjónustu sem á að vera sjálfsögð?

Herra forseti. Ég spyr þess sama: Af hverju þarf þess?

Við horfum einnig upp á minna fjármagn til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og ég mótmæli því harðlega þar sem sú stofnun hefur gengið í gegnum mikinn niðurskurð undanfarin ár og mér finnst komið nóg. Horfum aðeins á þá hlið málsins, gæti það ekki minnkað álagið á Landspítalanum ef við byggðum einnig vel undir heilbrigðisþjónustuna úti á landi og ykjum við þjónustuna sem þar er veitt? Þá styrkjum við byggðir landsins því að heilbrigðisþjónusta er einn af þeim grunnþáttum sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu.