143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir vinna fjárlaganefndar vegna fjárlaga 2014. Þegar fjárlögin voru lögð fram birtist sú stefna að draga ætti úr álögum á fjölskyldur og atvinnulíf. Einnig birtist það markmið að skila ætti hallalausum fjárlögum sem er forsenda þess að íslenskt samfélag nái viðspyrnu á ný.

Sé litið til umræðunnar hér á þinginu tel ég þingheim vera sammála um að skila hallalausum fjárlögum. En um leið fer fram mikil umræða um að fjölmörg mikilvæg verkefni og málaflokka vanti aukið fjármagn og nánast allur niðurskurður í frumvarpinu er gagnrýndur þótt það séu verkefni sem voru ófjármögnuð. Einnig verður maður var við að þegar hinar ýmsu stofnanir fá aukin verkefni sjá hv. þingmenn sig skylduga til að samþykkja aukið fjármagn til að sinna verkefninu. Má þar nefna sem dæmi þegar Fiskistofa fékk 40 milljónir fyrir að innheimta veiðileyfagjöld. Ég hef ekki orðið var við að þingmenn finni til þessarar skyldu þegar verkefnin í heilbrigðiskerfinu eða löggæslunni aukast. Ef Landspítalinn gat gert skipulagsbreytingar hjá sér og veitt sömu þjónustu með 300 færri starfsmenn sem og lögreglan með 100 færri starfsmenn hljóta aðrar opinberar stofnanir að geta gert betur, margar hafa reyndar gert slíkt.

Virðulegi forseti og hv. þingmenn. Við erum öll sammála um að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar, í þágu heilbrigðis, mennta, löggæslu og samgöngumála. Slík forgangsröðun kallar á breytingar. Við verðum að þora að gera breytingar. Annars gerist ekki neitt. Við hv. þingmenn og starfsmenn hins opinbera verðum að þora að gera hlutina öðruvísi en þeir hafa verið gerðir. Við verðum núna á meðan fjárlaganefnd er að störfum að sýna að við þorum að forgangsraða. Því kalla ég eftir að þingmenn komi með skýr skilaboð hingað í ræðustól um hvernig þeir vilji forgangsraða með því að leggja til tillögur um hagræðingu en ekki bara tillögu um aukin fjárútlát. Það þýðir ekki að heimta allt en sýna svo enga ábyrgð í að fjármagna það.

Virðulegi forseti. Sýnum kjark.