143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi skýrsla sé nú tekin til umræðu. Það er margt gott sem kemur fram í henni og líka tímabært að við eigum þessa umræðu í þessum sal.

Það er svolítið gaman að því þegar maður fer að skoða þessi mál og líta aðeins yfir söguna að á vef Landsvirkjunar segir að fyrst hafi komið upp hugmyndir um lagningu svona raforkusæstrengs til Skotlands fyrir 60 árum. Þessi umræða hefur því sannarlega átt ágætan meðgöngutíma. Það breytir því ekki að alltaf með reglulegu árabili könnuðu menn fýsileika þess að gera þetta og gerðu ákveðnar hagkvæmniathuganir á því. Það var ekki fyrr en 2009–2010 með hagkvæmniathugun sem Landsvirkjun og Landsnet lét gera sem fram komu vísbendingar um að það gæti verið arðbært og hagkvæmt fyrir okkur að ráðast í þetta verkefni. Því má segja, virðulegi forseti, að umræðan á þeim tíma hafi farið á flug í kjölfarið á þeirri athugun. Ég fann svo sannarlega fyrir því þegar ég var í iðnaðarráðuneytinu að mikill áhugi var erlendis frá á þessum kosti, en oft fannst mér menn telja að við ættum meiri og stærri auðlindir til þess að leggja í svona verkefni en við eigum í raun og veru. Ég vona að umræðan fari að ná einhverri jarðtengingu og verði skynsamlegri nótum en hún var upphaflega. Hún gerir það líka með svona skýrslugjöf.

Ástæðan fyrir því að staðan breyttist og lagning raforkustrengs fór að verða mögulega arðbært verkefni eftir hagkvæmniathugun Landsvirkjunar og Landsnets árin 2009 og 2010 eru breyttar markaðsforsendur í Evrópu og sömuleiðis aukin eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku vegna stefnumörkunar í Evrópu.

Þetta er ákaflega áhugavert mál. Ég tel að við eigum að halda áfram að skoða þetta vegna þess að ég tel okkur ekki vera komin á þann stað að við getum tekið einhverja ákvörðun, þ.e. að stoppa, hægja á ferlinu eða hreinlega gera þetta. Það er heilmikið eftir og þess vegna þykja mér tillögurnar sem fram koma skilmerkilega í skýrslunni frá ráðgjafarhópnum afar skynsamlegar.

Fráfarandi ríkisstjórn markaði stefnu af ýmsu tagi og þá ekki síst á orkusviði. Eitt af því sem ráðist var í var mörkun á orkustefnu, heildarorkustefnu, og í henni er fjallað um sæstreng. Þar kemur fram, eins og kemur líka fram í þessari skýrslu, að eitt af markmiðunum er að einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin með lagningu sæstrengs ef og þegar það reynist þjóðhagslega hagkvæmt. Þetta er lykilatriði, að einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin, vegna þess að eina ástæðan fyrir því að þetta gæti verið spennandi fyrir okkur og einn af kannski stærstu kostum þess að fara í slíka framkvæmd er einmitt sá að við erum með lokað raforkukerfi og með heilmikla svokallaða strandaða orku, þ.e. varaorku sem við komum ekki í verð vegna þess að kerfið er lokað. Ef við værum með svona streng gætum við selt þetta varaafl þegar við erum ekki að nota það — það er kostur, það er einn kostur — í stað þess að láta það fara til spillis.

Í öðru lagi verð ég að nefna að einn af kostum þess að gera þetta er sá að við Íslendingar gætum fengið langþráðan sveigjanleika í orkufrekri atvinnuuppbyggingu. Við höfum hingað til þurft að horfa til þess að fara í miklar virkjunarframkvæmdir, ef hingað ætla að koma fjárfestar til þess að byggja upp í orkufrekum iðnaði, og við höfum ekki átt orku fyrir minni og meðalstór fyrirtæki sem hingað hafa viljað koma og nýta íslenska raforku til uppbyggingar. En með því að tengjast í gegnum sæstreng gætum við haft þann sveigjanleika til að byggja hér upp fjölbreyttari iðnað sem er orkufrekur.

Annar kostur við þetta er sá að við gætum litið til annars konar raforkuframleiðslu, t.d. vindorku. Við gætum farið að horfa til þess að nýta vindorkuna í auknum mæli. Sú framleiðsla hefur ákveðna toppa og er afar sveiflukennd og það væri þá kostur að vera með sæstreng þannig að við gætum selt hana þegar hún væri í toppi.

Það eru fjölmargir kostir við þetta. Mér þótti hæstv. ráðherra hamra fullþungt á ókostunum þannig að ég tók þá ákvörðun að telja líka upp kosti þess að fara þessa leið. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að fjölmörgum spurningum er ósvarað. Ég er ekki sammála henni að við séum komin nægjanlega langt til að geta svarað pólitískt þeim spurningum sem hún lagði hér fram. Ég er ósammála því vegna þess að okkur vantar enn þá miklu meiri upplýsingar til þess að geta tekið ákvörðun í málinu. Ég lít miklu frekar á það sem svo að við séum hér í þessum sal í dag að taka stöðuna í kjölfar þess að þessi skýrsla kemur fram. Ráðgjafarnefndin, sem var ansi stór og þverfagleg, segir í skýrslunni að málinu sé langt því frá lokið og langt því frá tilbúið fyrir ákvarðanatöku.

Virðulegi forseti. Við höfum ekki nægar upplýsingar og þess vegna verðum við að halda þessu áfram. Ég vil því, eins og hér er óskað eftir við hæstv. ráðherra, leggja það til að haldið verði áfram af fullum krafti við gagnaöflun og áframhaldandi vinnu í þessu máli til að leiða það síðan til lykta með annaðhvort jái eða neii, skoða kosti og galla þannig að við alþingismenn og þjóðin öll getum tekið upplýsta ákvörðun um málið.

Auðvitað eigum við að horfa á þetta út frá okkar hagsmunum fyrst og síðast. Það eru ekki slíkir hagsmunir í þessu fyrir kaupendurna vegna þess að þetta verður alltaf einungis brotabrot af raforkukaupum þeirra erlendis frá, þetta verður aldrei „make or break“ t.d. Bretlands, en þetta yrði hugsanlega góð viðbót. Fyrir okkur verður þetta alltaf stórmál hvernig sem á það er litið og getur líka orðið risamál þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkið og fyrir íslenska þjóð. Þetta getur orðið svo arðbært að við megum ekki loka á málið.