143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Mér finnst hún löngu tímabær, sérstaklega í ljósi þess hversu umdeilt málið er í samfélaginu því að í því skiptist fólk í tvo hópa, eins og í öðrum málum, eftir því hvort það vill fara í þennan sæstreng eða ekki. Ég hef sífellt haft efasemdir um þessa aðgerð og tel framkvæmdina allt of stóra fyrir íslenskt samfélag þrátt fyrir að hér sé verið að lofa einhverju fjármagni að utan, sér í lagi vegna þess að Landsvirkjun er í eigu ríkisins og hefur ekki mótaða eigendastefnu. Ég skil því raunverulega ekkert í því hvað þetta ríkisfyrirtæki er komið langt fram úr stjórnvöldum varðandi framtíðarsýn fyrirtækisins.

Landsvirkjun er líklega eitt af okkar bestu fyrirtækjum og hefur skapað grunn að því samfélagi sem við þekkjum hér á landi. Hlutverk Landsvirkjunar samkvæmt lögum er alveg augljóst, fyrirtækið er eigandi raforkuvera og annarra mannvirkja, vatnsréttinda og búnaðar sem fyrirtækið á samkvæmt lögum. Það er svolítið merkilegt að skoða lög um Landsvirkjun, ég fór að glugga í þau fyrir umræðuna. Tilgangur Landsvirkjunar er samkvæmt 2. gr. að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Þessu lagaákvæði var breytt 2003. Áður var Landsvirkjun einungis falið að stunda starfsemi á orkusviði en þarna var bætt við tilganginn að Landsvirkjun ætti líka að stunda viðskipta- og fjármálastarfsemi. Það finnst mér alveg hreint ótrúlegt því að í raun er hægt að segja að tilgangurinn þarna sé að stunda sömu starfsemi og fjármálastofnanir. Þá erum við komin að því sem er grunnurinn að þessum sæstreng, þetta er meiri háttar fjárfesting og meiri háttar aðgerð ef við, lítil eyja á norðurslóð, látum okkur detta í hug að fara í verkefnið.

Í fyrsta lagi mundi það breyta ásýnd okkar sem þjóðar. Við yrðum hreinræktaðir hrávöruframleiðendur fyrir Evrópuþjóðir í stað þess að flytja út fullunna vöru og vera fullvinnsluþjóð eins og sífellt er verið að kalla eftir, t.d. varðandi sjávarútvegsauðlindina okkar. Það er eitthvað sem ég vil ekki sjá, að við yrðum hrávöruframleiðendur að rafmagni fyrir ríki Evrópusambandsins með þessum streng. Við skulum fara aðeins yfir hvað þetta þýðir raunverulega og hversu risastórt verkefnið er. Ég bið þá sem vilja fylgjast með umræðunni að fara í skýrsluna í það sem heitir Sæstrengur til raforkuflutninga á bls. 80.

Ég ætla, með þínu leyfi, virðulegi forseti, að fara yfir hvaða áhrif þetta hefur á Íslandi:

„Rætt hefur verið um að útflutningur raforku um sæstreng geti samsvarað allt að 800 MW afli. Til samanburðar má nefna að uppsett afl Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar) er 690 MW.“

Það voru engin smálæti og átök innan lands þegar verið var að byggja Kárahnjúkavirkjun og bið ég landsmenn um að fara aftur í tímann. Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött en til þess að hægt sé að fara í þennan sæstreng þarf samtals 800 MW, þ.e. 110 megavöttum meira en Kárahnjúkavirkjun framleiðir. Ég er ekki alveg viss um að skýjaborgirnar sem er búið að byggja í kringum hugmyndina um sæstreng séu þannig að verið sé að líta raunsætt á málið. Erum við ekki búin að fá nóg af því að byggja skýjaborgir sem engin er innstæða fyrir? Ég bið þingmenn og landsmenn alla um að fara aftur til haustdaga 2008. Ég tel að þetta sé allt of stórt verkefni fyrir svo fámenna þjóð þrátt fyrir fagurgalann sem kemur frá Bretlandi varðandi þessi atriði.

Það kemur fram hér að uppsett afl allra raforkuvera á Íslandi þurfi að vera um 2.700 megavött. Ég spyr því alla sem hafa skoðað þessi mál: Erum við tilbúin til að sökkva Íslandi fyrir raforkustreng? Hér er talað um vindorku og sjávarfallaorku og allar þær nýjungar sem eru í orkusköpun til framtíðar, en ég vil minna á að þau atriði eru ekki komin svo langt á veg nú um stundir þannig að það er eitthvað sem óvíst er með í framtíðinni.

Það er mjög alvarlegt mál að mínu mati að þetta skuli vera komið svona langt í umræðunni. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað Landsvirkjun er búin að fara með af fjármagni í verkefnið því að það margir hafa komið að því og ég veit að til dæmis hafa markaðsfræðingar unnið við að kynna hugmyndina erlendis.

Ég ætla að grípa niður í kafla í skýrslunni sem heitir Áhrif í Bretlandi, með leyfi forseta:

„Ein af ástæðum þess að hagkvæmt kann að þykja að leggja rafstreng milli Íslands og Bretlands er að framkvæmdin getur dregið úr þörf fyrir óendurnýjanlega orkugjafa í Bretlandi og þannig stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda þarlendis. Að sama skapi getur framkvæmdin verið liður í að uppfylla markmið Bretlands (og Evrópusambandsins) um hlutfall endurnýjanlegrar orku.“

Virðulegi forseti. Ég bara spyr: Er það hlutverk Íslendinga að sjá til þess að Bretar geti uppfyllt skilyrði sín varðandi Kyoto-bókunina? Ég segi nei. Við eigum nóg með okkur, sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingin og Vinstri grænir fóru með það í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili að ganga þessu losunarkerfi á hönd og þar með var sóað út úr höndunum á okkur sem þjóð fleiri milljarða eign sem fólst í íslenska ákvæðinu í losunarkerfinu. Mér finnst þetta því vera orðin ansi mikil samþætting á milli Íslands og ríkja Evrópusambandsins og þá einkum Bretlands ef við eigum að fara að bera ábyrgð á þeim þáttum fyrir Breta.

Skýrslan er uppfull af fróðleik og staðreyndum og tel ég að komið sé að lokum vinnunnar því að það verður ekki gerð mikið vandaðri skýrsla en þessi. Plaggið er afar gott fyrir umræðuna. Mér finnst að sé skýrslan lesin séu í henni það miklar upplýsingar að við þurfum ekki að hugsa okkur neitt um lengur, sér í lagi vegna þess að nú hefur umsóknin að Evrópusambandinu verið dregin til baka og þó að ráðamenn síðasta kjörtímabils hafi aldrei viljað viðurkenna það er þetta hluti af samningnum, þ.e. þessi sameiginlegu orkuskipti á milli landanna. Í Lissabonsáttmálanum kemur skýrt fram að sé ríki sambandsins í orkuþurrð skuli annað ríki sem er fært til þess að láta orku af hendi afhenda þá orku.

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að ég vona að það fjari fljótlega undan umræðunni um þennan orkustreng því að það er á engan hátt hægt að sýna fram á að hann sé hagkvæmur eða komi til með að bera sig. Þann rökstuðning vantar algjörlega að mínu mati. Ég tel að það muni dofna mjög yfir umræðunni eftir örlög ESB-umsóknarinnar. Ég vil minna á að búið var að loka orkumálakaflanum í hinum svokölluðu samningaviðræðum, sem var búið að fara í þrátt fyrir að aðildarviðræðurnar hefðu dregist mjög á langinn undir forustu Samfylkingarinnar, þá kom það ákvæði fram að einu ríki Evrópusambandsins væri skylt að afhenda öðru ríki orku.

Vegna þess að tíminn er senn á þrotum skulum við koma að því sem kannski er alvarlegasti hlutinn í þessu. Hér ætlum við að byggja upp græna stóriðju og eru uppi meiri háttar hugmyndir um tómataræktun, aðra grænmetisræktun eða blómaræktun til þess að flytja á erlenda markaði. Uppi eru hugmyndir um að selja orkuna okkar á hærra verði en tíðkast í ríkjum Evrópusambandsins sem við berum okkur saman við og er það frábært vegna þess að orkan okkar er sú hreinasta í heimi. Ég spyr: Verði sæstrengnum komið fyrir í sjó og við verðum farin að flytja rafmagn fram og til baka, því að þetta er ekki einstefnuvegur, erum við þá tilbúin til að blanda okkar hreinu orku saman við orku Evrópusambandsríkjanna sem er búin til með kolum og kjarnorku? Ég segi nei takk. Við erum því með því að fara í þetta verkefni um leið að gjaldfella okkar eigin orku og menga hana með þeirri skítugu orku sem þarna er að finna. Ég hafna því, virðulegi forseti, og tel að okkur sé betur komið með því að selja orkuna til fullvinnslu innan lands.