143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er engum blöðum um það að fletta að virkjun fallvatna og jarðvarma hefur skipt sköpum fyrir íslenskt samfélag. Ný atvinnutækifæri sköpuðust og verðmætasköpun skaut rótum sem hefur skilað mikilli uppskeru.

Hér er til dæmis rætt um orkuverð. Það gleymist gjarnan í umræðunni að rekja það hver ástæðan er fyrir því að íslensk heimili og fyrirtæki borga lægsta orkuverð í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, langlægsta orkuverðið. Það er afleiðing orkufreks iðnaðar, það er vegna þess að það var orkufrekur iðnaður sem stóð undir uppbyggingu dreifikerfisins í landinu. Ef hann væri ekki til staðar greiddu íslensk heimili og fyrirtæki miklu hærra orkuverð en raun ber vitni. Það er kannski mesta arðsemi þjóðarinnar af þeirri stefnu sem innleidd var hér upp úr 1960.

Áður var þjóðin algjörlega háð sjávarútvegi með tilheyrandi erfiðleikum þegar markaðir eða fiskstofnar gáfu eftir. Eftir þá þróun eru stoðir íslensks samfélags fleiri og tækifærin eru einnig fleiri. Það er erfitt fyrir okkur að meta hvaða tækifæri í frekari orkuvinnslu og raforkusölu eiga eftir að koma til okkar. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að vinna úr þeim og vega og meta þá valkosti sem upp kunna að koma á þessum vettvangi.

Það eru skiptar skoðanir um þetta mál eins og gengur og mörg varnaðarorð falla á meðan ýmsir eru mjög bjartsýnir á að þetta geti skilað okkur mikilli og aukinni arðsemi af orkuframleiðslu. Hugmyndin er ekki ný, henni var fyrst hreyft fyrir nokkrum áratugum. Í dag erum við komin lengra í allri tækni svo það er kannski fyrst raunhæft nú á þessum tímum að ræða um þennan möguleika af einhverju viti.

Í þessu eru tækifæri og ógnanir. Við þurfum auðvitað að greina það enn frekar.

Ég er almennt hlynntur þeirri reglu að raforkuframleiðsla innan lands eigi að vera nýtt til framleiðslu og verðmætasköpunar til að fjölga hér störfum, auka útflutningsverðmæti og skapa meiri gjaldeyri fyrir þjóðarbúið.

Ef við skoðum þá hugmynd nánar getur vel verið að það muni færa okkur áleiðis á þessari vegferð þar sem við sjáum þá betur hversu mikil arðsemin getur orðið og hvar við náum mestri arðsemi af þessari raforkuframleiðslu okkar.

Almennt leiðir þetta til hagkvæmari vinnslu og dreifingar orku en ella. Það er mikilvægt markmið. Við sjáum það við lestur skýrslunnar hversu gríðarlega mörgum spurningum er enn ósvarað, nefndin stóð frammi fyrir því. Menn þurfa ekki annað en að fletta skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands til að sjá að heildarkostnaður getur verið á bilinu 288–533 milljarðar kr. Það eru engir smáaurar. Það segir okkur hversu mikil vinna er óunnin. Áætlaðar nettóúflutningstekjur geta orðið á bilinu 4–76 milljarðar.

Virðulegi forseti. Það segir í raun allt sem segja þarf í þessu máli eins og það stendur í dag. Við stöndum frammi fyrir því, Alþingi Íslendinga, að fá þessa skýrslu nú í hendur. Það er á okkar ábyrgð að vinna málið áfram. Ég kalla eftir yfirvegaðri vinnu og yfirvegaðri og fordómalausri umræðu um málið. Það er okkar að fara með þetta fjöregg þjóðarinnar og við eigum að marka þar skynsamlega stefnu til framtíðar, stefnu sem skilar þjóðinni sem mestri arðsemi af náttúruauðlindunum þegar upp er staðið.