143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er eiginlega sjaldgæfur unaður að fá að taka þátt í eins safaríkri umræðu og hér fer fram. Hún hefur verið ákaflega málefnaleg og ég held að hér séu menn að reyna að vanda sig. Við sjáum hugsanlega spretta fram nýja atvinnugrein sem gæti í fyllingu tímans fleytt hingað til lands nýjum og áður óþekktum verðmætum. Ég er hins vegar sammála því að við þurfum að fara að með gát og rasa hvergi um ráð fram.

Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir það hvernig hún nálgast þetta mál. Hæstv. ráðherra kemur hingað til okkar og segist vilja fá sterkt umboð frá þinginu varðandi þetta mál. Að sama skapi leggur hún fyrir okkur ákveðnar pólitískar spurningar sem þarf að svara.

Ég er sammála henni um að okkur sé á þessu augnabliki kleift að taka ákvörðun um að taka næsta skref. Það næsta skref á að felast í því að setja málið í áframhaldandi rannsókn og skoðun og ég er sammála henni um að tiltekna þætti þurfi að skoða alveg sérstaklega.

Sú skýrsla sem er andlag þessarar umræðu er að mörgu leyti góð. Þó finnst mér á henni ýmsir ágallar. Ég hegg til dæmis eftir því að í niðurstöðum nefndarinnar og í umfjöllun nefndarinnar á fundum og með þeim sérfræðingum sem hún kallar til sín er að mjög litlu leyti, að mér finnst, fjallað um þá öryggistryggingu sem felst í því fyrir Ísland að leggja slíkan streng. Við skulum ekki gleyma því að það er hægt að flytja rafmagn eftir honum í báðar áttir.

Þegar ég var iðnaðarráðherra á sínum tíma var farið ákaflega vel yfir áhættu og orkuöryggi Íslands. Eitt af því sem menn komust að niðurstöðu um var að strengur af þessu tagi mundi bæta mjög öryggi íslensks atvinnulífs. Gleymum því ekki að við erum þjóð sem býr við náttúruhamfarir og það er vel hugsanlegt að sú staða komi upp einhvern tímann í framtíðinni að stórar eða litlar náttúruhamfarir verði til þess að við verðum miklu betur sett hvað varðar orku með því að eiga kost á því að taka hana til baka frá Evrópu um streng. Mér finnst vanta að leggja áherslu á þetta. Þetta er öryggisatriði fyrir Ísland.

Sömuleiðis finnst mér vanta betri skilgreiningu á þeim pólitísku spurningum sem þarf að skoða. Það er alveg ljóst að það er sérstaklega ein spurning sem vaknar í mínum huga og ég held að við þurfum að vera í færum til að geta svarað áður en við tökum endanlega ákvörðun. Hún er þessi: Ef við tengjumst neti Evrópu með þessum hætti, í gegnum streng, er þá hægt að grípa til einhverra ráða sem tryggja að áfram verði hægt að bjóða íslenskum neytendum jafn lágt orkuverð og það hefur verið? Það held ég að skipti sköpum varðandi það sterka umboð sem hæstv. ráðherra segist kalla eftir frá þjóðinni og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að sé forsenda þess að hægt sé að ráðast í þetta. Við verðum að geta svarað þeirri spurningu.

Það eru ýmsar leiðir uppi um það. Mér finnst til dæmis, svo ég svari spurningu hæstv. ráðherra, einn af þessum afmörkuðu þáttum framkvæmdarinnar sem á að skoða vera hvort hægt sé að tryggja það að orkuverð til tiltekinna svæða landsins eða til allra neytenda verði áfram lágt, t.d. með því að ákveða fyrir fram að hluta af þjóðhagslegum arði eða beinum rekstrarlegum arði eigenda fyrirtækjanna eins og Landsvirkjunar verði varið til að tryggja það.

Er hægt að fara aðra leið? Búrfellsvirkjun var á sínum tíma byggð með það fyrir augum að í fyllingu tímans yrði hún afskrifuð, eins og hún er í reynd í dag, og mundi sjá neytendum á Íslandi um langa framtíð fyrir raforku á lágu verði. Er hægt að fara þá leið að taka einhverjar virkjanir út úr þessu kerfi og láta þær fyrst og fremst sinna þessu hlutverki?

Ég held líka að við megum ekki vanmeta þann möguleika sem felst í því að flytja orku til Íslands á tímum þegar hún er ódýr í Evrópu. Það er hægt að taka hana hingað og geyma í lónum. Það þarf að skoða hvort sú aðferð geti leitt til þess að ekki þurfi að koma til þeirra hastarlegu ruðningsáhrifa sem margir hafa gert hér að umræðuefni. Ég geri mér algjörlega grein fyrir því að þetta verkefni verður mjög erfitt og verður torvelt að ná um það sátt ef það leiðir til þess að orkuverð muni hækka í svipuðum mæli og í Noregi og ef þetta hefur ruðningsáhrif, t.d. gagnvart ýmiss konar grænum iðnaði. Þess vegna tel ég þetta einn af þeim þáttum sem skoða beri.

Í lok máls míns, frú forseti, vil ég brýna fyrir hæstv. ráðherra að það er nauðsynlegt að hafa hratt á hæli gagnvart því að ráðast í þessa skoðun. Við horfum núna fram á breytingar í heiminum sem leiða til þess að orkuverð fer lækkandi. Ég tel líklegt að vegna nýrrar orkuauðlindar sem menn eru að virkja og eru skilgreindar sem endurnýjanlegar, þá á ég við náttúrulegt gas, muni orkuverð halda áfram að lækka. Þess vegna tel ég að annar afmarkaður þáttur sem verður að skoða hið fyrsta sé möguleikinn á því að gera langtímaorkusamninga við orkukaupendur í Evrópu sem tryggja að áhættan af framkvæmdinni verði mjög lítil. Á síðasta kjörtímabili ræddu Bretar það opið að gera slíkan samning.

Í blálok ræðu minnar, meðan ég syndga upp á tímann, frú forseti: Af hverju eru menn bara að tala um Breta? Önnur þjóð hafði líka áhuga, þjóð sem við höfum því miður kynnst of náið á síðustu árum, Hollendingar. Ég held að við eigum ekki á þessu stigi að binda okkur endilega bara við Breta.