143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar áðan varðandi skýrsluna og þeim sem hafa tekið til máls í þessu máli. Ég held — og tek undir með mörgum sem hér hafa talað — að töluvert langt sé í land í þessari umræðu og að skoða þurfi marga þætti mun betur. Vinnan við skýrsluna sýnir í rauninni að fleiri spurningar vakna heldur en svör. Fara þarf fram miklu ítarlegri og yfirgripsmeiri vinna varðandi mörg atriði.

Í fyrsta lagi þarf að fara fram mjög ítarleg rannsókn á þjóðhagslegri hagkvæmni, þjóðhagslegri arðsemi þess að selja raforku um sæstreng eða nýta hana til framleiðslu hér innan lands. Þá er ég ekki að tala um að blanda þessu saman við umræðu um það hvort Ísland sé hrávöruland eða ekki. Við höfum séð hvernig til dæmis Landsvirkjun hefur talað, þ.e. hversu mikið sé hægt að auka tekjur Landsvirkjunar og auðvitað er Landsvirkjun einungis að horfa á það hvaða verð fæst fyrir orkuna. En á móti kemur að orka sem nýtt er hér innan lands er auðvitað líka að skila tekjum til ríkisvaldsins, tekjum til ríkissjóðs með öðrum hætti. Tökum garðyrkjuna sem dæmi. Tökum lítil og stór iðnaðarfyrirtæki um allt land. Þau fyrirtæki, og starfsfólkið sem starfar þar, skila auðvitað tekjum til ríkissjóðs þrátt fyrir að orkuverðið sé ekki nákvæmlega það sama og það er með því að selja orkuna gegnum sæstreng.

Þessi úttekt sem Hagfræðistofnun vinnur í tengslum við skýrsluna sýnir í rauninni að það þarf miklu stærri og meiri rannsóknir en menn kannski héldu fram. Við sáum yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar fyrir nokkrum árum, að það væri nánast í hendi að þarna væri gríðarlegur ávinningur.

Frú forseti. Svo ég vitni í skýrsluna, úttekt Hagfræðistofnunar, þá segir þar, með leyfi forseta, að nauðsynlegt sé að ráðast í frekari rannsóknir.

„Þær rannsóknir eru helstar:

Áhrif verkefnis á raforkuverð innan lands og hagkvæmasta ráðstöfun hagnaðar af sölu raforku um sæstrenginn.

Tímabundin byggðaáhrif og þjóðhagsleg áhrif þeirra.

Þjóðhagslegur kostnaður vegna nýtingar náttúruauðlinda.

Áhrif ábyrgða hins opinbera á lánskjör þess og þjóðhagslegur kostnaður sem af því hlýst.

Ábati og kostnaður af þátttöku innlendra aðila í fjármögnun sæstrengsins.

Samanburður á þjóðhagslegum ábata þess að selja raforku um sæstreng miðað við að selja orkuna til framleiðslu innan lands.“

Við sjáum því að skoða þarf gríðarlega mörg atriði betur. Tillögurnar sem ráðgjafarhópurinn leggur til eru þær að farið sé í þá vinnu og þetta sé skoðað betur.

Það er eitt sem mig langar að vara mjög við. Við sáum af því fréttir nýlega — þessi úttekt Hagfræðistofnunar er prýðisvel unnin, ég tek það fram — að Landsvirkjun, forstjórinn þar og forustan hefur verið í mikilli vinnu sem tengist þessum sæstreng, en við sáum það nýlega að Hagfræðistofnun gerði samstarfssamning við Landsvirkjun um að Landsvirkjun yrði svona einhvers konar styrktaraðili eða stuðningsaðili Hagfræðistofnunar. Ég geld varhuga við því og hvet ráðherra til að gæta þess að fari sú vinna í gang, hún mun hugsanlega fara í gang, og Hagfræðistofnun vinni hana þá er gríðarlega mikilvægt að engar svona tengingar séu til staðar til að fyrirbyggja það að að baki slíkri vinnu verði ekki fullur trúverðugleiki.

Annað sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt að taka inn í þetta og Hagfræðistofnun kemur inn á eru byggðaáhrifin. Þar hefur einkum verið talað um að þetta geti valdið hærra raforkuverði sem leiði til mikils kostnaðar hjá mjög fámennum þjóðfélagshópi sem býr á köldum svæðum og kyndir hús sín með rafmagni. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, áður en hún setur þessa vinnu af stað, ef henni verður fram haldið, að klára það að jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum líkt og stefna ríkisstjórnarinnar og stefna beggja stjórnarflokkanna samþykkt á flokksþingum og landsfundum beggja flokkanna á síðasta ári segir til um. Það er grundvallaratriði og þá strax væri búið að eyða einum óvissuþætti og það ætti hæstv. ráðherra að gera áður en þessi vinna fer af stað.

Annað sem hefur líka verið í umræðunni í tengslum við þetta er þegar menn tala um þann arð sem getur skapast til Landsvirkjunar af sölu raforku um sæstreng og það geti hlaupið á tugum milljarða króna. Hæstu tölurnar í þessu miða auðvitað við stórauknar virkjunarframkvæmdir og að orkan verði þá seld um sæstrenginn. Ég efast mjög um þær tímasetningar sem hafa verið nefndar og hafa reyndar verið aðeins á reiki vegna þess að ég held að jafnvel þótt vilji væri til þess að virkja meira, sem ég held að sé, þá muni það ekki gerast svona hratt. Við sjáum að við hverja virkjunarframkvæmd sem kemur til umræðu er gríðarleg andstaða víða í samfélaginu. Þetta mun því ekki gerast jafn hratt og hefur gerst undanfarna áratugi vegna þess að það er breyttur tíðarandi, breytt vinnulag o.s.frv.

Varðandi næstu verkefni sem ráðgjafarhópurinn leggur til og hefur komið fram með, að um þetta hafi verið þverpólitísk sátt, þá er auðvitað mikilvægt að svara þeim fjölmörgu spurningum sem hafa kviknað. En ég vil hins vegar segja það sem mína persónulegu skoðun að ég tel ekki eðlilegt á þessu stigi að Landsvirkjun sem fyrirtæki, sem fyrst og fremst á að vera í því að framleiða orku og selja, eigi að vera svona á kafi í þessari vinnu. Ef vinnan á að halda áfram er eðlilegast að þetta fari út úr Landsvirkjun og Landsvirkjun einbeiti sér að sinni kjarnastarfsemi vegna þess að það er gríðarlega mikið af rannsóknum sem þarf að vinna, meðal annars á hafsbotni. Menn hafa verið að tala um viðhaldskostnað við sæstrenginn, hver kostnaðurinn sé við það o.s.frv. Ég sé ekki annað en að þetta flokkist undir að vera einhvers konar áhættustarfsemi og menn ættu þá að fara í það að reyna að laða að einhvers konar áhættufjárfestingu inn í þetta verkefni en ekki vera með Landsvirkjun á kafi í þessari vinnu.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir umræðuna og skýrsluna sem á margan hátt er mjög góð en ítreka þau sjónarmið sem hafa komið fram í ræðu minni.