143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag. Í maí í fyrra kom hingað til lands Charles Hendry, þáverandi orkumálaráðherra Bretlands, og skrifaði undir viljayfirlýsingu um samstarf Íslendinga og Breta um orkumál, ásamt mér sem iðnaðarráðherra fyrir Íslands hönd. Fyrir undirritun viljayfirlýsingarinnar átti ég fund með orkumálaráðherranum þar sem ég lagði ríka áherslu á að sæstrengur yrði ekki lagður frá Íslandi til Bretlands nema að um það verk og áhrif þess væri sátt í samfélaginu. Þær áherslur ítrekaði ég í viðtölum þann sama dag og á fleiri fundum sem haldnir voru í kjölfarið með orkumálaráðherranum.

Lagning sæstrengs frá Íslandi hefði áhrif á mörgum sviðum þjóðlífsins og því er lykilatriði að leita sáttar um svo stóra ákvörðun. Með það að leiðarljósi skipaði ég þverpólitískan ráðgjafarhóp á árinu 2012 með fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila. Má þar nefna fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, náttúruverndarsamtökum, aðilum vinnumarkaðarins og Neytendasamtökunum. Sá hópur skilaði í júní síðastliðnum skýrslu þeirri sem við ræðum nú hér og komst að sameiginlegri niðurstöðu án mótatkvæða og án sérálita sem er nokkuð sérstakt í svona stórum, þverpólitískum hópi.

Lagning sæstrengs er stór ákvörðun og mörg álitamál þarf að skýra í tengslum við slíka ákvörðun. Það er hins vegar eðlilegt vegna áhættusamrar samsetningar í viðskiptamannahópi Landsvirkjunar þar sem álver eru fyrirferðarmest að ábendingar um hagkvæmni slíkrar tengingar verði skoðaðar til hlítar.

ESB-ríkin hafa undirgengist skuldbindingar um hlutdeild umhverfisvænnar orku árið 2020. Mörg ríkjanna eiga langt í land með að ná þeim markmiðum og eru því áhugasöm um að finna leiðir til þess. Þess vegna líta þau til Íslands og okkar endurnýjanlegu orku. Spurningin er hvort og með hvaða hætti íslensk orka fáist seld undir þeim ívilnunarkerfum sem ríkin nota en sá möguleiki að fá gott verð fyrir raforkuna er ein helsta röksemdin fyrir tengingu við evrópska orkukerfið.

Nú berast til dæmis fréttir af því að bresk stjórnvöld hafi skrifað undir orkukaupasamning við kjarnorkuver sem byggja á þar í landi og að orkuverðið verði um 90 pund á megavattstundina, verðtryggt í 35 ár. Þetta er nálægt 150 dollurum og því um fimm- eða sexfalt það verð sem Landsvirkjun hefur á undanförnum árum fengið fyrir raforku til stóriðju. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að skoða alla þá kosti sem hækkað getað tekjur okkar af auðlindunum.

Augljóslega þarf einnig að skoða gallana og vega og meta stöðuna. Eitt af því sem skiptir meginmáli í umræðunni um lagningu sæstrengs og að tengjast raforkukerfi Evrópu er áætlun um vernd og nýtingu orkusvæða, rammaáætlun okkar Íslendinga. Þó að framleiðsla endurnýjanlegrar raforku og útflutningur hennar um sæstreng falli að mörgu leyti vel að áherslum græns hagkerfis mun lagning sæstrengs frá Íslandi sennilega auka þrýsting á byggingu nýrra virkjana og háspennulína. Lög um rammaáætlun og lög um náttúruvernd eru því undirstaða allrar umræðu um auðlindina og nýtingu hennar.

Í erindisbréfi ráðgjafarhópsins sem ritaði skýrsluna sem hér er til umræðu kemur fram að meðal þeirrar rannsóknarvinnu sem framkvæma þarf séu greiningar á samfélags- og þjóðhagslegum áhrifum, tæknilegum atriðum, lagaumhverfi og milliríkjasamningum og umhverfisáhrifum.

Ráðgjafarhópnum er líka ætlað að standa að upplýstri umræðu um málið og í skýrslunni eru dregnir fram helstu kostir lagningar sæstrengs og einnig helstu gallar. Helstu kostirnir eru hærra verð fyrir útflutta orku, betri nýting núverandi vatnsafls- og jarðvarmavirkjana, bætt rekstraröryggi raforkukerfisins, betri áhættudreifing í tekjum raforkufyrirtækjanna, tækifæri á uppbyggingu annarra orkukosta, svo sem vindorku, og aukið framlag til loftslagsmála. Helstu ókostirnir eru hækkun raforkuverðs á almennum markaði og til iðnaðar, hugsanlega færri ný bein störf og aukin umhverfisáhrif.

Ekki reynist tími til þess hér að reifa kostina eða gallana svo nokkru nemi en hvort tveggja þarf að skoða enn betur og finna á ókostunum lausnir ef mögulegt er. Mætti til dæmis, ef til kæmi, gera langtímasamninga innan lands um verð á raforku til garðyrkjubænda eða annarra atvinnugreina? Er möguleiki að raforkuverð til almennings hækki ekki í samræmi við verð á rafmagni í gegnum sæstreng? Mætti nýta tekjuaukann til að lækka önnur gjöld og skatta á heimili og fyrirtæki? Hvernig mun auðlindarentan skiptast á milli ríkis og orkusveitarfélaga? Hvað með jöfnun húshitunar á köldum svæðum sem hefur verið nefnt hér fyrr í umræðunni? Margar fleiri spurningar vakna og margra hefur einmitt verið spurt í þessari ágætu umræðu.

Virðulegi forseti. Ráðgjafarhópurinn um raforkustreng til Evrópu leggur fyrir hæstv. iðnaðarráðherra tillögur í sjö liðum um framhald verksins og ég tek undir þær tillögur, þar á meðal þá tillögu að hæstv. iðnaðarráðherra heimili Landsvirkjun og Landsneti viðræður við hagsmunaaðila. Það tel ég skynsamlegt að gera, fá betri upplýsingar og taka svo víðtæka umræðu um málið í þessum sal og einnig annars staðar í samfélaginu.