143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu eru aðallega lagðar til breytingar á gildandi ákvæðum almannatryggingalaga um réttindi borgaranna og skyldur þeirra í samskiptum við Tryggingastofnun ríkisins. Einnig er lagt til að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar verði auknar í því skyni að tryggja réttar greiðslur til viðskiptavina stofnunarinnar og koma í veg fyrir bótasvik.

Þá er gerð ráð fyrir þeirri mikilvægu breytingu að Tryggingastofnun verði heimilað að fresta ákvörðun um greiðslu lífeyris úr almannatryggingum hafi ekki samhliða verið sótt um lífeyri úr lífeyrissjóðum.

Áhrif þeirra breytinga sem varða samskipti Tryggingastofnunar um borgarana felast fyrst og fremst í auknu réttaröryggi, til að mynda með þeim hætti að auka leiðbeiningar og rannsóknar- og upplýsingaskyldu stofnunarinnar þannig að fólk fari ekki á mis við réttindi sem það kann að eiga tilkall til. Er það einnig í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga um að stjórnvöld veiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar.

Ég tel afar mikilvægt að kveða skýrt á um réttindi og skyldur borgaranna í samskiptum við stjórnvöld í lögum, m.a. hvað varðar gagnkvæma upplýsingaskyldu svo og um meðferð persónuupplýsinga og þagnarskyldu starfsfólks.

Umsækjendum og þeim sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun er skylt að taka virkan þátt í meðferð mála sinna hjá stofnuninni, einkum með því að veita þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðslna, fjárhæðir þeirra og endurskoðun. Má í því sambandi nefna breytingar sem verða á heimilisaðstæðum fólks sem máli skipta eða ef tekjur hækka eða lækka sem aftur getur haft áhrif til breytinga á greiðslurétti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aðrir aðilar sem búa yfir upplýsingum, sem geta haft áhrif á rétt til greiðslna eða fjárhæðir þeirra samkvæmt lögunum, skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Heimildir þessar þykja of takmarkaðar í gildandi lögum. Er því lagt til að þær verði rýmkaðar. Bótaréttur samkvæmt almannatryggingalögum byggist fyrst og fremst á búsetutíma, tekjum, hjúskaparstöðu og heimilisaðstæðum viðkomandi. Beinn aðgangur stofnunarinnar að þessum upplýsingum hjá öðrum stofnunum og stjórnvöldum er forsenda þess að Tryggingastofnun geti framfylgt lögunum og þar með sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Í gildandi lögum er ekki að finna heimildir til handa stofnuninni til að afla annarra upplýsinga en tekjuupplýsinga án milligöngu umsækjanda eða bótaþega og þykir nauðsynlegt að bæta úr því. Gert er ráð fyrir að stofnunin geti nálgast upplýsingarnar beint eftir atvikum með rafrænum hætti. Aukið flæði upplýsinga milli stofnana er talið vera til þess fallið að stuðla að betri og skilvirkari afgreiðslu stofnunarinnar og sparar fólki sporin milli stofnana.

Ríkisendurskoðun hefur bent á, í skýrslu sinni um eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins með bótagreiðslum, að stofnunin hafi takmarkaðri lagaheimildir til að annast eftirlit og samnýta persónuupplýsingar frá öðrum ríkisstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum en systurstofnanir hennar í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Bendir Ríkisendurskoðun á að bæta þurfi tengingar Tryggingastofnunar við upplýsingakerfi aðila sem stofnunin þarfnast upplýsinga frá til að efla skilvirka samkeyrslu upplýsinga. Með því móti er talið að auka megi hagkvæmni og skilvirkni í rekstri ríkisins, stuðla enn betur að því að bætur rati til þeirra sem eiga rétt á þeim og komi í veg fyrir misnotkun. Þá kemur fram í skýrslunni að lög sem ekki þróist í takt við breyttar aðstæður torveldi greið upplýsingaskipti og samnýtingu mikilvægra upplýsinga fyrir bótakerfið. Rafræn upplýsingamiðlun getur þannig stuðlað að réttari bótagreiðslum, hraðari afgreiðslu og betri þjónustu Tryggingastofnunar við viðskiptavini sína.

Í þessu frumvarpi er lagt til að farið verði að þessum ábendingum Ríkisendurskoðunar og heimildir Tryggingastofnunar auknar að þessu leyti, en jafnframt sérstaklega áréttað að öflun persónuupplýsinga er einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt er með hliðsjón af lögbundnu hlutverki stofnunarinnar og að tryggja skuli að upplýsingaöflun og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að unnt sé að framfylgja lögunum.

Þá er sérstök áhersla lögð á það í frumvarpinu að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Tryggingastofnun ríkisins fer með mjög viðkvæmar upplýsingar og því er mikilvægt að starfsfólk sé vel upplýst um þagnarskyldu sína og þá ábyrgð sem því fylgir að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Hinu sama gegnir reyndar um stjórn stofnunarinnar og þá sem sinna verkefnum fyrir hana.

Er stofnuninni einnig gert skylt að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og jafnframt skuli hún setja öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er einnig verið að skerpa nokkuð á eftirlitsskyldu og eftirlitsheimildum Tryggingastofnunar. Er það gert í því skyni að stuðla að réttum bótagreiðslum, koma í veg fyrir ofgreiðslur og vangreiðslur og fyrirbyggja bótasvik. Megintilgangur virks eftirlits er einmitt að tryggja að þeir sem sækja um greiðslur almannatrygginga fái réttar greiðslur í samræmi við réttindi sín lögum samkvæmt.

Sú krafa er einnig hávær í þjóðfélaginu að farið sé með fjármagn hins opinbera í samræmi við lög og reglur. Til að svo megi verða er mikilvægt að opinberar stofnanir, þar á meðal Tryggingastofnun, hafi nægilegar heimildir til upplýsingaöflunar. Ríkisendurskoðun fjallar um nauðsyn þess í áðurnefndri skýrslu sinni og bendir á að aðrar þjóðir, t.d. Norðurlandaþjóðir, eins og ég kom inn á áðan, hafa ítarleg ákvæði og heimildir hvað varðar aðhald og eftirlit. Eru slíkar heimildir enda taldar til þess fallnar að auka tiltrú almennings á almannatryggingakerfinu og fela í sér betri nýtingu á almannafé.

Með þetta að leiðarljósi er í frumvarpi þessu lagt til að sett verði ákvæði sem auðveldi Tryggingastofnun að sinna eftirlitshlutverki sínu. Í velferðarráðuneytinu var farið vel yfir þær athugasemdir sem komu fram við umfjöllun þingsins um frumvarp það sem ég lagði fram á sumarþinginu og varðar lög nr. 86/2013.

Við vinnslu þess frumvarps sem hér er lagt fram hefur verið tekið mið af þeim ábendingum sem bárust sérstaklega frá Persónuvernd. Í því sambandi má nefna að þeir aðilar sem upplýsingaskylda hvílir á eru í frumvarpinu tæmandi taldir og tilgreindar eru sérstaklega þær upplýsingar sem afhenda á Tryggingastofnun í tengslum við afgreiðslu umsókna í þágu eftirlits. Er mikilvægt að kveða skýrt á um þessi atriði enda um vandmeðfarnar heimildir að ræða sem krefjast þess að lagaákvæðin séu vel útfærð og að réttaröryggi viðskiptavina stofnunarinnar sé tryggt.

Einnig skal þess getið að við undirbúning frumvarpsins hefur verið horft til annarra Norðurlandaþjóða, einkum Noregs, en þar er að finna ítarlegri ákvæði og heimildir er varða aðhald og eftirlit en hér hefur tíðkast og gildandi lög gera ráð fyrir.

Greiðslur almannatrygginga byggjast á ýmsum þáttum. Ég tel því mikilvægt að Tryggingastofnun hafi aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum um þau atriði sem skipta máli og þær upplýsingar gefi rétta mynd af aðstæðum viðkomandi á þeim tíma er greiðslurnar eru inntar af hendi. Er nauðsynlegt að stofnunin geti kannað réttmæti þeirra upplýsinga sem stofnunin byggir ákvarðanir sínar á til þess að geta greitt réttar bætur til réttra einstaklinga á réttum tíma.

Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að Tryggingastofnun verði heimilt þegar rökstuddur grunur leikur á því að bótaréttur sé ekki fyrir hendi að fresta greiðslum tímabundið meðan mál er rannsakað frekar. Er lögð á það áhersla að í slíkum tilvikum beri að flýta málsmeðferð svo sem kostur er og gæta meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem um meðalhóf. Þá er gert ráð fyrir því ef í ljós kemur að bótaréttur er ekki fyrir hendi að stöðva greiðslur.

Ég er líka þeirrar skoðunar að taka þurfi sérstaklega á tilvikum þar sem upp kemur rökstuddur grunur um bótasvik, en þau eru undir engum kringumstæðum líðandi. Ekki er hægt að láta slíka háttsemi óáreitta. Slíkt fer í bága við réttarvitund og réttlætiskennd almennings og grefur undan velferðarkerfinu. Mikilvægt er að taka þessi mál fastari tökum en áður hefur verið gert. Því er lagt til að viðurlagaákvæði laganna verði breytt á þann hátt að þegar sýnt þykir að greiðslur hafi átt sér stað vegna vísvitandi rangra eða ófullnægjandi upplýsinga eða skorts á upplýsingum skuli hin ofgreidda fjárhæð endurgreidd að viðbættu 15% álagi. Kæmi það í stað greiðslu dráttarvaxta ef um sviksamlegt atferli er að ræða.

Hér á landi hefur verð komið á tveggja stoða lögbundnu lífeyriskerfi sem tryggja skal öryggi borgaranna við starfslok eða vegna skertar starfsgetu. Mér hefur þótt mikilvægt að samstilla betur almannatryggingakerfið við áunnin réttindi fólks úr atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu og skapa þannig meiri sátt um samspil þessara tveggja meginstoða lífeyriskerfisins á Íslandi. Í frumvarpi þessu er því lagt til að í almannatryggingalöggjöfina verði sett ákvæði sem heimila Tryggingastofnun ríkisins að fresta ákvörðun um greiðslu lífeyris úr almannatryggingum á grundvelli umsókna til Tryggingastofnunar hafi ekki samhliða verið sótt um lífeyri úr lögbundnum lífeyrissjóðum. Með því móti verði komið í veg fyrir að einstaklingar geti fengið hærri greiðslur hjá almannatryggingum eingöngu með því að fresta því að sækja áunninn réttindi sín hjá atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu og ávinna sér með þeirri frestun um leið hærri greiðslur úr því kerfi.

Lífeyrir almannatrygginga hefur félagslegt markmið og er ætlað að tryggja einstaklingum lágmarksgreiðslur sér til framfærslu hafi þeir litlar aðrar tekjur. Fjárhæðir greiðslna almannatrygginga eru þess vegna háðar öðrum tekjum sem lífeyrisþegi kann jafnframt að hafa sér til framfærslu. Þannig hafa lífeyrissjóðstekjur einstaklings áhrif á heildargreiðslur bóta til hans frá almannatryggingum.

Ég vil að lokum míns máls aðeins koma inn á áframhald vinnu við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Henni er nú haldið áfram og sú mikla vinna sem hefur verið lögð í málaflokkinn í velferðarráðuneytinu og í þeim nefndum sem unnið hafa um langt skeið að endurskoðun almannatryggingalaganna mun smátt og smátt skila sér í betri löggjöf á Alþingi.

Fram undan er vinna við hið eiginlega starfsgetumat í stað örorkumats sem við búum við í dag. Þá er lögð áhersla á að horfa til þess hvaða getu þeir hafa til vinnu sem búa við skerta starfshæfni til langframa í stað þess að metin sé vangeta þeirra til vinnu. Jafnframt þarf að bæta enn frekar endurhæfingarúrræði hvað varðar heilsu en ekki síst starfsendurhæfingu, ásamt því að leita leiða til að einfalda regluverkið. Er það í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar.

Ég tel líka nauðsynlegt að skapa hvata til að ná því markmiði stjórnvalda að fólk með skerta starfsgetu hafi möguleika á að fá vinnu við hæfi og uppskeri laun í samræmi við það. Við þurfum að halda áfram að bæta núgildandi kerfi í áföngum, en jafnframt að vanda vel til verka.

Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar.