143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að vita eitt varðandi þetta, hvort það eigi ekki frekar að vera bótaþeginn, sem er aðili sem er oft í slæmri efnahagsstöðu, sem njóti vafans ef vafi er á því hvort hann á rétt á bótum. Ef vafi leikur á því eru bætur greiddar út en ef það kemur síðan í ljós að bótaþegi á ekki rétt á bótum eru þær rukkaðar til baka með einhvers konar vöxtum eða slíku. Er ekki hægt að hugsa þetta þannig frekar en að bótaþeginn sé settur í þá stöðu að hann geti ekki greitt reikninga sína og lendi virkilega illa í því fjárhagslega? Það er spurning sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra.

Svo er það varðandi friðhelgi einkalífsins og persónuvernd. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að hlusta vel á Persónuvernd og eins nefndina sem fer með málið og þingmenn í þessum sal þannig að þingið samþykki ekki lagafrumvörp í þriðja sinn frá kosningum sem stangast á við ábendingar Persónuverndar, þeirrar stofnunar ríkisins sem á að sjá til þess að ekki séu sett lög sem brjóta gegn friðhelgi einkalífsins á Íslandi sem er stjórnarskrártryggð.

Við píratar munum ekki láta það afskiptalaust ef þingið samþykkir lög sem brjóta gegn stjórnarskránni. Við munum hjálpa á öðrum vettvangi og stuðla að því að þeir sem verða fyrir því að brotið er gegn friðhelgi einkalífs þeirra fái rétt sinn bættan á öðrum vettvangi.

Ég mæli því eindregið með því að það sé hlustað á Persónuvernd í þessu máli.