143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt vegna nefndarvinnunnar að ég nefni þetta. Í þeim málum sem voru á dagskrá á sumarþinginu, annars vegar frumvarp um Seðlabankann og hins vegar frumvarp um Hagstofuna, gaf Persónuvernd álit, umsögn til nefndarinnar þess efnis að möguleiki væri á því og miklar líkur á að verið væri að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins. Persónuvernd kom með tillögur í öðru tilfellinu um það hvernig væri hægt að breyta þessu og lagði til breytingartillögu. Á þetta var ekki hlustað. Málinu var breytt að einhverju leyti og aftur kom umsögn frá Persónuvernd þar sem sagði: Nei, þetta er ekki nóg, það er enn þá möguleiki á því að með þessu lagafrumvarpi sé verið að brjóta friðhelgi einkalífsákvæðis stjórnarskrárinnar.

Ég er að undirbyggja þetta í sambandi við málið, persónuverndarsjónarmiðið. Nú erum við í 1. umr. eins og hv. þingmaður segir og ég vildi heyra, fyrst ráðherra er í salnum að fylgja eftir sínu frumvarpi, hvort hún sé ekki sammála því að ekki eigi að afgreiða þetta frumvarp frá þinginu, hvort hún sé sammála því sem þingmaður, hún er jú líka þingmaður. Ég beini kannski spurningu minni til hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, hvort hún muni greiða atkvæði með eigin frumvarpi ef Persónuvernd gefur því ekki grænt ljós eða gefur því þá umsögn að það muni mögulega brjóta friðhelgi einkalífsins. Að við fengjum það bara staðfest hér í þingsal. Það væri mjög gott.