143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu mati bendir þetta svar hv. þingmanns til þess að hann geti ekki svarað þessari spurningu. Það er alveg hárrétt, ég get það ekki heldur. Ég er alveg sannfærður um það að ef leið Vinstri grænna væri farin í þessum efnum væri löngu komið að viðhaldi á því sem yrði byggt á fyrsta ári áður en við værum hálfnuð með að byggja húsið.

Sú leið sem þarna er lögð til er hefðbundin leið sem er ekki í boði miðað við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag, enda gat þingmaðurinn ekki nema með útúrsnúningi svarað þessari einföldu spurningu. Þetta er í raun og veru grundvallaratriði. Það er nefnt í greinargerð með frumvarpinu að fara þessa leið en við segjum jafnframt að við teljum hana ófæra vegna stöðu ríkisfjármála og þess sem þarf að gera. Eitt er bygging spítalans, annað er rekstur heilbrigðiskerfisins. Það þekkir fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra.

Mín næsta spurning til hv. þingmanns er þessi: Hvers vegna samþykktu Vinstri grænir í síðustu ríkisstjórn samninginn við lífeyrissjóðina sem snerust um að fara leiguleið, ekki lántökuleið eins og við erum að tala um, þ.e. að byggingin yrði ríkisframkvæmd með láni, sem er ein leið ríkisfjármögnunar? Af hverju samþykktu Vinstri grænir að stofna leigufélag og fara þá leið á sínum tíma? Það var, virðulegi forseti, ráðherra heilbrigðismála úr þingflokki Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, sem undirritaði það samkomulag. Hvað hefur breyst?