143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um byggingu nýs Landspítala eða það sem margir hafa viljað tala um sem endurbætur og endurbyggingu á Landspítalanum.

Spurningin undanfarin ár hefur verið: Á að byggja eða ekki? Og ef það á að byggja þá hvar og hvenær? Það er svolítið merkilegt að horfa til baka. Það kemur fram í þingsályktunartillögunni að lengi hefur verið rætt um byggingu nýs Landspítala og hægt að fara tíu ár aftur í tímann. Málið hefur farið í gegnum umfjöllun hjá nánast öllum þeim ríkisstjórnum sem hafa setið á undanförnum árum, og hjá ráðherrum a.m.k. Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænum og Samfylkingu og nú kemur til afdráttarlaus stuðningur frá Bjartri framtíð. Hér virðist því hafa verið mjög rík pólitísk sátt um að bygging nýs Landspítala sé nauðsyn.

Nú kemur upp ágreiningur um hvort þetta sé fær leið á þessum tímum. Það er merkilegt að rifja upp að þegar hrunið varð árið 2008 var m.a. rætt um stöðugleikasáttmála. Þá lágum við undir ámæli um framkvæmdaleysi, þáverandi stjórnvöld. Fyrst voru það Sjálfstæðisflokkur og Samfylking og síðan þegar nýja ríkisstjórnin kom 2009 var gerður stöðugleikasáttmáli þar sem lögð var mikil áhersla á að ráðast í framkvæmdir. Þáverandi stjórnarandstaða undir forustu Sjálfstæðisflokksins hafði uppi mikla umræðu um það, og raunar Framsókn líka, að framkvæmdir í landinu væru allt of litlar, menn hefðu ekki haldið uppi fjárfestingum, nú væri rétti tíminn til að gera það og vera áræðinn o.s.frv. — allt þetta hefur fokið út af borðinu undanfarið. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga svo mikilvæg, að þingið taki afdráttarlausa afstöðu. Eigum við að ráðast í þetta eða ekki?

Það hefur líka verið kvartað um það á undanförnum missirum að óvissan væri mikil, menn vissu ekki að hverju væri stefnt, hvað biði. Ég ætla ekki að lýsa því hversu erfitt það var að þurfa að fara í að endurstilla íslenskt samfélag þegar tekjurnar hrundu um fimmtung og við þurftum að leiðrétta fjárlagahalla upp á meira en 200 milljarða á til þess að gera skömmum tíma. Menn rífast um það í dag hvort þetta hafi tekist alveg eða ekki. Þetta var gríðarlega stórt átak. Einn af stærstu útgjaldapóstum íslensks samfélags, heilbrigðiskerfið sem allir vilja hafa öflugt, varð að gjalda fyrir, bæði með fækkun starfsfólks og samdrætti á fjárútlátum, m.a. til tækjakaupa. Fjármagnið til tækjakaupa hafði þó verið rýrt í aðdraganda hrunsins. Engu var bætt þar við heldur krónutalan fest þangað til á síðasta ári og þessu ári.

Það sem síðan gerist er að menn hætta niðurskurði og gera sér fulla grein fyrir því að til að við getum haldið því hlutverki að vera í fremstu röð í heilbrigðismálum þarf öflugri Landspítala sem þjónar landinu öllu og er spítali landsmanna. Það þarf að bæta aðstöðu, öryggi og aðbúnað að öllu leyti. Það þarf að efla þjónustu við sjúklinga, bæta aðstöðu fyrir starfsfólk, og bæta aðbúnað, tæki og annað sem hefur verið látið bíða í þessum niðurskurði.

Hvað bíður núna? Í dag liggur fyrir fjárlagafrumvarp með frekari niðurskurði. Það er ekki búið að svara því hvort byggja eigi nýjan spítala nema að því leyti að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt að ekki sé búið að taka það mál af dagskrá en það liggi ekki fyrir að óbreyttu.

Ég vitnaði til þess að það hefði orðið forsendubreyting og ekki hafi verið talið fært að fara svokallaða leiguleið þar sem einhver einn aðili mundi eiga bygginguna alla og leigja hana síðan til ríkisins til langs tíma. Það eru tvær meginástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er sá aðili ekki talinn vera til nema þá hugsanlega í Kína, kínverskur aðili sem mundi vilja byggja nýjan spítala með því að koma með allt vinnuaflið hingað. Það töldum við algerlega ófæra leið. Hin ástæðan er að það eru ekki innlendir aðilar í þessu. Við viljum að framkvæmdin verði að mestu í höndum innlendra aðila, reynt verði að halda verkefninu hér til að efla atvinnu, til að hleypa hjólum atvinnulífsins hraðar í gang til að stuðla að fjárfestingu þó að hún sé á vegum hins opinbera.

Þegar þetta mál fór í gegnum þingið á sínum tíma, árið 2010 ef ég man rétt, en ég var þá formaður fjárlaganefndar, og menn samþykktu að fara í þessa framkvæmd, var það sett sem skilyrði að farið yrði ítarlega af hv. fjárlaganefnd og Alþingi yfir þær forsendur sem höfðu verið gefnar um að þessi framkvæmd ein og sér, sú breyting að færa alla þjónustuna eða obbann af henni á einn stað, mundi skapa hagræðingu upp á 2,6–3 milljarða á ári. Það mundi standa undir þeim lánum sem þyrfti til að fara í þessa framkvæmd að mestu leyti og ef við tækjum tillit til þess að hægt væri að selja þau hús sem þar mundu losna á móti auk þess sem við mundum spara okkur dýrar viðhaldsframkvæmdir, mundi það a.m.k. duga til að ná endum saman.

Af hverju er þetta ekki skoðað af núverandi stjórnvöldum, þetta verkefni klárað og reynt að gefa þá von og horfa til þeirrar framtíðar að hér verði lokið byggingu eða endurbyggingu nýs spítala á einum stað? Ég held að það sé mikilvægt að hafa hugfast í sambandi við þessa umræðu að áformin sem fyrri stjórnvöld settu fram vorum næstum tvöföld á við það sem hér er lagt til. Það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ef ég man rétt, þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var ráðherra. Í aðdraganda hrunsins og raunar um og eftir hrunið voru sett fram breytt áform þar sem reiknað var með því að nýta mun betur þær byggingar sem eru á Landspítalalóðinni og spara þannig tugþúsundir fermetra.

Ég held að það sé afar mikilvægt að menn ljúki þessu máli og ég fagna því að hér eru meðflutningsmenn frá öllum flokkum. Ég fagna því einnig að Vinstri grænir hafi gert sérstaka samþykkt um að þetta mál sé mikilvægt og eigi að hljóta framgang þó að einhver ágreiningur sé um hvaða aðferðir eigi að nota. Ég hef litið þannig á að eina færa leiðin sé að þetta verði opinber framkvæmd en með lántöku og menn reikni dæmið til enda. Það verði leitað eftir lánveitendum og lánum á sem hagstæðustum kjörum þar sem hagræðingin, eingöngu vegna sparnaðar sem verður vegna þess að við breytum húsnæðinu, muni duga til að borga þau lán niður. Við erum ekki að tala um frekari niðurskurð.

Það hafa verið gerðar ítarlegar úttektir á þessu í tvígang og lagðar fram, þær liggja opinberlega á netinu og hægt að fara yfir þær. Það er líka hægt að fara yfir þær með öðrum hætti ef menn vilja. Ef það er reyndin — í stað þess að menn tali um að það sé ekki hagræðing af þessu mundi ég vilja sjá þær athugasemdir formlega og ítarlega skoðun á því í staðinn fyrir að menn hafni hugmyndum um að byggja nýjan spítala eða endurbyggja.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál í sjálfu sér, greinargerðin skýrir sig að mestu leyti sjálf. Sagan gæti verið miklu ítarlegri. Ég tek undir með málshefjanda að hér væri hægt að ræða endalaust og að nýju aftur og aftur hvar sjúkrahúsið ætti að vera staðsett. Þegar ég kom að því máli sem velferðarráðherra var búið að fjalla um það í mörgum vinnuhópum, af mörgum borgaryfirvöldum og það var þá í sérstakri umfjöllun hjá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar sem að lokum samþykktu deiliskipulagið. Ég held því að óþarfi sé að eyða tíma í að ræða það mikið frekar. Niðurstaðan virðist alltaf verða sú sama.

Menn hafa haft áhyggjur af samgönguleiðum í tengslum við spítalann. Þá er ég ekki að tala um flugvöllinn heldur hvernig umferðin fer um Hringbraut og Miklubraut og hvaða tafir gætu orðið þar. Enda hef ég stundum leikið mér að því að segja: Ef við færðum spítalann t.d. á Vífilsstaðasvæðið eða lengra í burtu, hvað mundi gerast við þann reit sem þarna er í miðri borginni? Sennilega mundum við byggja þar íbúðabyggð upp á 10–20 þúsund manns. Hvernig á það fólk að fara í burtu? Við erum að tala um 4–5 þúsund starfsmenn á Landspítalanum. Þar af eru 2 þúsund á þessu svæði nú þegar eða rúmlega það. Hinir koma á ólíkum tímum vegna þess að það er vaktafyrirkomulag á spítalanum. Ég held að menn hafi ofmetið áhættuna af samgöngunum á þessu svæði enda hefur verið ítarlega farið yfir þær og sýnt fram á að þær muni ekki valda vandræðum.

Ég lýsi yfir einlægum stuðningi við þessa þingsályktunartillögu og það megininntak að við eigum að mynda þjóðarátak um að byggja og endurbyggja nýjan spítala til að gefa þau skýru skilaboð að við viljum hafa öflugt heilbrigðiskerfi, hafa áfram heilbrigðiskerfi sem er eitt það fremsta í heiminum og halda þeirri stöðu okkar. Við þurfum ekkert að gefa afslátt af því, við þurfum ekkert að skammast okkar þó að við höfum farið í gegnum erfiðleika en við eigum að standa upprétt að þeim erfiðleikum loknum.