143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu. Það er ekki vegna þess að ég sé sérstakur áhugamaður að vera með stjórnarandstöðunni í málum og enn síður vegna þess að ég vilji bruðla með skattfé. Ástæðan fyrir því að ég er á þessari þingsályktunartillögu er fyrst og fremst vegna þess að í henni felst ekki bara fjárhagslegur ávinningur heldur líka margt annað.

Það liggur fyrir að taka lán til langs tíma, 30 ára eða svo, sem mun kosta ríkið á fjórða milljarð, við vitum það, á hverju ári. En hvað fáum við á móti í beinhörðum peningum, ef við byrjum á því? Við spörum það sem kostar að hafa spítalann á mörgum stöðum, hvort sem er vegna sjúkraflutninga eða flutninga, nýtingar á starfsfólki, nýtingar á tækjum og tólum. Við getum endalaust farið yfir þetta. Það er örugglega metið á 2,6–3 milljarða. Þá er ekki búið að taka tillit til þess að í óbreyttu ástandi mun verða mikill viðhaldskostnaður upp á mörg hundruð milljónir á ári. Fjárhagslegi ávinningurinn er bara strax kominn.

Það er líka annar ávinningur sem er fjárhagslegur. Það að fara í svona framkvæmd mun sjálfsagt draga úr kostnaði við atvinnuleysi, það eykur umsvif og annað sem kallar á tekjur í ríkissjóð. Ef við hættum að tala um peninga, tölum um það sem verður að vera til staðar ef við ætlum að reka spítalann á annað borð með þeirri þjónustu sem þar hefur verið, þá vitum við að við núverandi aðstæður komum við ekki fyrir nýjustu tækjum sem eru nauðsynleg til að sinna þessari þjónustu þannig að við komumst ekki hjá þessu.

Annað atriði. Í dag er mikið talað um vandamál við að manna spítalann með læknum, áhugaleysi þeirra að koma heim frá námi þannig að það skapar vandamál. Nýr spítali mun örugglega verða til góðs í þeim vanda vegna þess að þetta snýst ekki alltaf bara um laun eins og margir halda heldur líka starfsaðstöðu, að geta sinnt starfi sínu.

Við sjáum að það er ýmiss konar hagur af því að gera þetta og gera það strax og gera það fljótt, eins og þingsályktunartillagan segir til um. Hugmynd Vinstri grænna, um að taka þetta bara úr ríkissjóði, er ekki framkvæmanleg við núverandi aðstæður. Auðvitað mun spítalinn ekki rísa við þær aðstæður. Mér finnst óskiljanlegt að þeir skuli ekki vilja vera með á þessari þingsályktunartillögu.

Auðvitað þurfum við alltaf að fara varlega. Við erum með skattfé í höndunum. Við verðum að nýta það sem best. Ef það borgar sig fjárhagslega og af öðrum ástæðum að fara þessa leið þá er ekki eftir neinu að bíða.