143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umtalsefni ákvörðun Seðlabankans frá því í morgun um óbreytta stýrivexti. Mér er sú ákvörðun algerlega óskiljanleg. Fram kemur að helstu rök séu þau að búist sé við auknum hagvexti, eða upp á 2,3%. Í nýlegri skýrslu ASÍ um daginn kom fram að gert er ráð fyrir 1,7% hagvexti. Ég verð að spyrja: Er það svo ægilegur héraðsbrestur að hér verði 2,3% hagvöxtur? Er það ástæða til að halda hér stýrivöxtum óbreyttum þegar fjárfesting er í sögulegu lágmarki eins og hún er búin að vera, í frosti í fjögur ár? Hvað ætlar Seðlabankinn að viðhalda lengi kyrrstöðu og deyfð? Ég velti því alvarlega fyrir mér hvað bankinn er að fara með þessu.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir, með leyfi forseta:

„Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum missirum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með breytingum nafnvaxta Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar.“

Það kemur líka fram að Seðlabankinn hótar aðilum vinnumarkaðarins því að stýrivextir verði hækkaðir ef launasamningar og kjarasamningar verði ekki Seðlabankanum þóknanlegir.

Herra forseti. Ég veit bara ekki í hvaða veruleika Seðlabankinn lifir. Það er kannski kominn tími til að endurskoða aðkomu hans að vaxtaákvörðunum hér í landinu.