143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á umræðum í Ríkisútvarpinu í fyrradag. Þar var flutt skýrsla sem við fulltrúar sem fórum á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fengum reyndar að heyra. Skýrslan er hrollvekja um aðstæður unglingsstúlkna í svokölluðum vanþróuðum löndum en ekki síst í sunnanverðri Afríku. Kornungar eru þær giftar, oftast sér miklu eldri mönnum. Þetta eru stúlkur sem ekki hafa tekið út nægan líkamlegan þroska til barneigna. Þúsundum saman deyja þær og börnin líka. Aðrar verða örkumla og útskúfaðar það sem eftir er. Þegar fæðing er svona erfið geta þær fengið svokallaðan fistil en það er þegar op eða tenging verður á milli endaþarms og legganga þannig að flæðir á milli. Tiltölulega einföld skurðaðgerð gæti bjargað þeim en ekkert slíkt er í boði fyrir þessar stúlkur. Þær lifa því við sársauka, þjáningar og óþef og eru í raun útskúfaðar frá samfélaginu.

Við verðum að finna ráð til þess að hjálpa þessum ungu útskúfuðu stúlkum. Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna hefur tekið á málinu en meira þarf til þess að hjálpa þeim. Íslendingar eru komnir hvað lengst í öryggi fæðinga en við munum fyrri tíma hér á landi þegar því fylgdi mikil áhætta bæði fyrir móður og barn að ganga í gegnum barnsfæðingu. Mér finnst við ekki geta staðið hjá. Ég hef tröllatrú á samtakamætti fólks og ekki síst kvenna til góðra verka.