143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í fyrra upplifðum við það að inn í Kolgrafafjörð streymdi gífurlegt magn af síld og breyttist úr verðmætum í að vera mengun. Núna óttast menn að stefni í það sama og eru byrjaðir að tala um mörg hundruð millj. kr. kostnað.

Ég vil að menn bregðist hratt við og reyni að breyta síldinni í verðmæti meðan hún er enn lifandi og komi í veg fyrir mengunina. Þetta verði gert með því að veita heimild til að veiða síld innan brúar og af brúnni og henni verði bara dælt upp á veginn. Þetta verði boðið út, helst í næstu viku því síldin bíður ekki neitt. Það verði boðið út í næstu viku að menn leggi fram 500 millj. kr. bankaábyrgð um að þeir klári verkið og síðan geti þeir hreinsað upp ef síldin skyldi sleppa inn. Að öðru leyti fái þeir að veiða svo sem eins og 5 þús. tonn sjálfir ókeypis fyrir bankaábyrgðina og að taka þátt í dæminu og síðan bjóði þeir í restina, þeir bjóði í hvað þeir vilja borga mikið fyrir hvert tonn sem þeir veiða umfram fyrstu 5 þús. tonnin.

Þetta gæti verið hugmynd um að breyta kostnaði í verðmæti, fá tekjur fyrir ríkissjóð og hindra mikla sóun og skemmdir. Nú þyrfti hugsanlega lagabreytingar til og ég vil spyrja hvort hv. atvinnuveganefnd, sem hv. þm. Jón Gunnarsson veitir forstöðu, hafi rætt þetta mál og hvort hún sé tilbúin að vinna hratt að lagasetningu í því skyni að reyna að bjarga síldinni. Þetta þarf að gerast bara helst fyrir helgi vegna þess að síldin bíður ekkert. Hún syndir þarna inn og eftir að hún er komin inn er mjög erfitt að ná í hana.