143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[15:52]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. samstarfsráðherra Eygló Harðardóttir hefur farið mjög vel yfir það sem norræna samstarfið felur í sér en ég ætla samt að segja að það er mikill heiður fyrir okkur að fá að vera með formennsku í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Þetta skiptir okkur miklu máli, þessu fylgja líka fjármunir. Við fáum í fjárhagsáætlun okkar 300 millj. kr. á árinu 2014 til að sinna þeim verkefnum sem grein hefur verið gerð fyrir.

Ég vil líka segja að norræna samstarfið samanstendur ekki bara af þeim fimm norrænu löndum sem okkur er svo gjarnt að tala um, Íslandi, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, heldur eru Álandseyjar, Grænland, Færeyjar og Samar líka þarna inni. Þetta er orðinn gríðarlega öflugur vettvangur og menningarlega séð er þarna mikil reynsla, mikil þekking, fjölbreytt og mismunandi. Það er hægt að vinna úr þeim hugmyndum sem þarna koma fram gríðarlega góða hluti.

Í formennskutíð okkar verður haldið aukaþing Norðurlandaráðs í apríl og það verður á Akureyri að þessu sinni. Ég heyrði á félögum okkar í norræna samstarfinu þegar við vorum á Norðurlandaráðsþingi í síðustu viku að þeir voru mjög spenntir fyrir því að fá að fara eitthvað annað en bara til Reykjavíkur. Ég held að það geti verið mikil upplifun fyrir þessa norrænu fulltrúa að sjá annað en höfuðborgarsvæðið.

Það er mikil ánægja með samstarfið. Norræna félagið hefur komið svolítið sterkt inn í það núna með Íslandsdeild Norðurlandaráðs og það er vel og er stuðningur við starfið hjá okkur. Þau fylgdu okkur á þinginu og hægt var að leita til þeirra með alla hluti sem við þurftum að fá úrlausn með ef á þurfti að halda.

Ég vil beina sjónum aðeins að mennta- og menningarmálum Norðurlandasamstarfsins vegna þess að ég sit sem fulltrúi Íslands í mennta- og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs. Fyrir árið 2013 runnu hvorki meira né minna en 42,2% af fjárlögum Norðurlandasamstarfsins til mennta- og menningarmála og rannsókna. Við erum að tala um að 173 millj. danskra króna fóru til menningarstarfs á Norðurlöndum og 243 millj. danskra króna fóru til mennta og rannsókna. Þetta segir okkur hvað menntun og menning skipar stóran sess í þessu starfi. Í þeirri formennskuáætlun sem hæstv. samstarfsráðherra Eygló Harðardóttir rakti áðan kom fram hverjar áherslur okkar eru varðandi mennta- og menningarmál. Þar er Biophilian ofarlega á blaði sem er mjög merkilegt verkefni. Ég sem skólamanneskja tel að það geti nýst okkur afskaplega vel með ungu fólki og við losnum úr viðjum hefðbundinnar kennslu og það er full þörf á að taka inn nýbreytni. Það skemmir ekki að Björk Guðmundsdóttir hefur verið sá aðili sem kemur með þessar hugmyndir inn til okkar.

Í samstarfi okkar í mennta- og menningarmálanefnd er unnið að ýmsum hlutum og á þessu þingi sem við vorum á um daginn voru samþykktar tillögur sem lúta að því og munu auðvitað koma af auknum krafti inn í formennskuárið hjá okkur. Þá voru samþykktar tillögur um að auka samstarf í mennta- og menningarmálum með það í huga að við séum ekki að tvítaka eða margtaka rannsóknir. Í ýmsum greiningum sem verið er að gera í starfi í mennta- og menningarmálum eru dregnar fram áherslur hvað varðar réttindi barna og unglinga. Þar er inni tillaga um samnorrænan skóladag. Tillagan lýtur að því að hann verði fyrst 20. nóvember 2014 en þá er 25 ára afmæli barnadags Sameinuðu þjóðanna. Það er líka verið að vinna með tillögur sem lúta að því að draga fram réttindi og möguleika á að börn sem koma úr brotnu umhverfi geti komist betur til manns ef skólinn heldur utan um þau, að farsæl skólaganga geti orðið til þess að þau komist betur til manns.

Síðan vil ég segja að það sem vakti náttúrlega mikla ánægju í þessu starfi okkar er að nú voru í fyrsta skipti veitt norræn barnabókmenntaverðlaun. Það sýnir í rauninni þann hug sem Norðurlandasamstarfið ber til menningar og þá virðingu sem það sýnir börnum og ungmennum.