143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri og koma á framfæri kæru þakklæti til hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem er fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlandanna og á heiðurinn af undirbúningnum að þeirri formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni sem hér er kynnt.

Þar eru áherslurnar á græna hagkerfið, á velferðarmálin og á skapandi greinar. Það eru málefnaáherslur sem hugnast okkur jafnaðarmönnum í Samfylkingunni alveg sérstaklega vel og sem við vildum raunar sjá meira af hjá þeirri nýju ríkisstjórn sem tekið hefur við völdum í landinu. En það er önnur saga.

Þegar horft er til þess hve litlum fjármunum við verjum til norræna samstarfsins, 150 milljónir nefndi hæstv. samstarfsráðherra hér í upphafi, fáum við alveg ótrúlega mikil gæði úr því, ekki bara beint, við fáum beinlínis miklu meira fé til baka en við leggjum í það, heldur líka tækifæri eins og í formennskuáætluninni til að kynna okkar eigin verkefni á 25 milljóna manna markaði. Við fáum líka tækifæri til þess að eiga í samstarfi við aðila sem ráða yfir reynslu og þekkingu sem við getum aldrei komið okkur upp hér og til þess að taka þátt í verkefnum, m.a. í vísindarannsóknum, sem eru miklu stærri og umfangsmeiri en við getum nokkurn tímann hleypt af stokkunum ein okkar liðs.

Það er þess vegna alveg sérstakt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að efla hið norræna samstarf og að horfið verði af braut niðurskurðar framlaga til þess sem verið hefur núna og verður næstu tvö árin. Þvert á móti er það mikilvægt fyrir okkur að lagt verði meira af fjármunum almennt í þetta samstarf af norrænu ríkjunum því að það kemur litlum ríkjum vel. Auðvitað eru öll Norðurlöndin hvert um sig lítið ríki í hinu stóra samhengi en af þeim erum við fámennust þjóðanna og sú sem hefur ótvírætt langmestan haginn af því.

Ráðherra nefndi það samstarf sem er að hefjast á sviði heilbrigðismála sem ég tel mikla ástæðu fyrir okkur Íslendinga til að binda vonir við. Þar búum við vel að hafa nýjan framkvæmdastjóra fyrir Norrænu ráðherranefndinni, Dagfinn Høybråten, sem er fyrrverandi heilbrigðisráðherra í Noregi og hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir þekkingu sína á því sviði. Þar eru auðvitað ákaflega mikilvægir hlutir sem við getum gert saman, oft og tíðum hlutir sem varða beinlínis líf og dauða vegna þess að á Norðurlöndunum er hægt að sinna sjaldgæfum sjúkdómum til að mynda með hætti sem við, 300 þús. manna þjóð, getum aldrei gert ein. Það er hægt að sérhæfa sig í ýmiss konar lækningum á einum stað á Norðurlöndunum sem aldrei væri hægt að gera með sama árangri í öllum fimm löndunum. Við getum átt samstarf um margvísleg flókin og stór verkefni, bæði í rannsóknum og öðrum hlutum, og síðast en ekki síst vil ég nefna að við getum líka átt samstarf til þess að spara því að við getum unnið saman í innkaupum, bæði á búnaði hvers konar í heilbrigðisþjónustu og eins í lyfjum. Í því samstarfi sem við lögðum kannski mesta áherslu á síðustu árin, um utanríkis- og varnarmálin, höfum við Íslendingar notið nokkurs góðs, bæði í þeirri viðleitni sem er til aukins eftirlits og björgunarviðbúnaðar í Norðurhöfum, í loftrýmiseftirlitinu yfir Íslandi, eins í þeim áherslum sem koma sér vel í ríkisfjármálum og til þess að spara útgjöld í því að sameinast um þjónustu í sendiráðum landanna í öðrum löndum og reyna að ná meiri hagkvæmni í hinn opinbera rekstur.

Það er sannarlega líka mikilvægt að gæta að þeim sóknartækifærum sem við eigum í þessu samstarfi.