143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra, samstarfsráðherra Norðurlanda, Eygló Harðardóttur fyrir skýrslu hennar og greinargerð um formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði á næsta ári. Þessi áætlun eins og hér hefur komið fram hefur auðvitað verið í vinnslu alllengi og var meðal annars hafinn undirbúningur að henni í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar undir forustu þáverandi samstarfsráðherra, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Eins og ræða hæstv. samstarfsráðherra bar með sér er ágætur samhljómur á milli stjórnmálaflokkanna hér á landi um áherslur í norrænu samstarfi. Ég held að þó að oft sé nú tekist á um ýmis verkefni og mál í utanríkis- og alþjóðamálum hér í þingsal sé fátt ef nokkuð sem á sér eins góðan samhljóm milli stjórnmálaflokka á Íslandi og þátttaka í norrænu samstarfi.

Ég held að fullyrða megi að það samstarf sé okkur sem lítilli þjóð, tiltölulega lítilli þjóð í þessu samhengi, mjög mikilvægt. Það þarf sem sagt ekki að orðlengja það að ég og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum mjög ánægð með þær áherslur sem er að finna í formennskuáætluninni fyrir næsta ár og ég er sannfærður um að núverandi hæstv. ríkisstjórn mun fylgja eftir af mikilli einurð. Ég treysti hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda mjög vel fyrir þeim málaflokki.

Hæstv. ráðherra gat um nokkrar megináherslur í þessari formennskuáætlun og þarf kannski ekki að fara mjög ítarlega í saumana á þeim aftur en ég vil sérstaklega geta þess að ég tel mikilvægt að á vettvangi Alþingis og í þjóðþingunum almennt gefist tækifæri til að ræða norræna samstarfið og þau verkefni sem norrænu ríkin, bæði á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og á vettvangi þingmannasamstarfsins í Norðurlandaráði, geta orðið samstiga um.

Á vormánuðum, ég hygg að það hafi verið á árinu 2012, fór fram sérstök umræða í þjóðþingum allra Norðurlandanna um landamærahindranir. Það var mikilvægt verkefni sem var og er í gangi og hæstv. ráðherra kom inn á sérstaklega. Það er dæmi um verkefni sem er tilvalið til að taka til umfjöllunar í þjóðþingum allra norrænu ríkjanna samtímis eða á svipuðum tíma eins og var gert þá og ég hygg að það sé tilefni til að framhald verði á slíkri umræðu.

Mér finnst mikilvægt að árétta í örfáum orðum þau verkefni sem hæstv. ráðherra gat um. Við teljum að þau verkefni sem hér er að finna séu mjög góð og þörf. Lífhagkerfið er verkefni sem byggist á samvinnu atvinnuvegaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins og snýst um græna hagkerfið og grænt atvinnulíf. Velferðarvaktin á krepputímum var sérstaklega nefnt sem verkefni þar sem við hyggjumst flytja út reynsluna af íslensku velferðarvaktinni svo hægt sé að laga hana að öðrum norrænum ríkjum þannig að öll löndin geti unnið saman að eins konar félagslegum mælikvörðum á velferðina.

Hæstv. ráðherra nefndi líka norræna spilunarlistann sem snýst um að kynna norræna tónlist á milli Norðurlanda og út á við gagnvart öðrum markaðssvæðum. Þetta tel ég vera mjög þarft verkefni. Það er, má segja, í anda þess að leggja áherslu á skapandi atvinnugreinar. Það sýnir okkur að hægt er að flytja ýmislegt annað út heldur en fisk og ál og þarna geta Norðurlöndin saman náð meiri slagkrafti en við bara ein. Þetta er dæmi um þá staðreynd að norræn tónlist, svipað eins og við getum nefnt hátíðina Iceland Airwaves, er spennandi fyrir fólk um heim allan.

Verkefnið Biophilia sem hæstv. ráðherra nefndi einnig byggir á hugmynd Bjarkar Guðmundsdóttur um að tengja saman tónlist og raunvísindi og nýta tónlist til að kynna börnum vísindi. Þetta verkefni á síðan að flétta inn í lífhagkerfið og hugmyndin er að tengja það saman við menntun og skólastarf.

Ég átti þess kost á síðasta kjörtímabili að starfa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, sækja nokkur Norðurlandaráðsþing og vera virkur þátttakandi þar í nefndarstarfi. Ég var meðal annars á árinu 2012 formaður í mennta- og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs og tel að það sé að sjálfsögðu málasvið þar sem Norðurlöndin eiga ekki hvað síst samstarfsfleti þó að það nái að sjálfsögðu til fleiri málaflokka. Það sem ég tel að sé lærdómsríkt í norræna samstarfinu — það er oft talað um að í svona alþjóðlegu samstarfi geri menn lítið annað en að mæta á fundi og hlusta hver á annan og fari svo til síns heima og síðan gerist ekki mikið meir — en þannig er það ekki í norrænu samstarfi. Þar sjá menn jafnvel hlutina sem þeir tala fyrir verða að veruleika. Ég leyfi mér bara að nefna að á árinu 2011 var ég á Norðurlandaráðsþinginu talsmaður umhverfisnefndar Norðurlandaráðs fyrir stefnumótun um að draga úr sóun á matvælum sem var fjallað um í umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs á því ári og var samþykkt ályktun um á þinginu 2011 og sem hæstv. ráðherra gerði síðan grein fyrir hér að menn eru að vinna með áfram. Þetta tel ég mjög þýðingarmikið verkefni.

Á árinu 2012 á vettvangi mennta- og menningarmálanefndar þegar ég gegndi þar formennsku var m.a. fjallað um eina menningarverðlaunahátíð, þ.e. að verðlaun Norðurlandaráðs yrðu veitt öll saman á sama tíma og það gerðist núna í fyrsta skipti. Sömuleiðis fjölluðum við sérstaklega um barnabókmenntaverðlaunin í þeirri nefnd. Það voru ekkert allir á einu máli um það, hvorki í ráðherranefndinni né í Norðurlandaráði að það ætti að veita sérstök barnabókaverðlaun en fyrir þessu töluðum við og höfðum erindi sem erfiði. Þau voru veitt núna í fyrsta skipti á þessu ári. Þetta er dæmi um að menn geta séð þá hluti sem þeir fjalla um á vettvangi Norðurlandaráðs verða að veruleika. Þetta tel ég vera afskaplega mikilvægt.

Ég vil líka leyfa mér að nefna þá áherslubreytingu sem varð fyrir ekki löngu síðan á vettvangi Norðurlandaráðs að taka upp sérstaka umræðu um samstarf í utanríkis- og öryggismálum. Það var til skamms tíma þannig að utanríkismál voru hálfgert tabú á norrænum vettvangi en það er það ekki lengur. Ég tel að það sé mjög jákvæð þróun að við fjöllum um þau þar og að utanríkisráðherrar Norðurlandanna sitji fyrir svörum þingmanna og ræði um utanríkismál. Enda þótt okkur kunni að sjálfsögðu að greina á um einstaka þætti í utanríkismálum í Norðurlandaráði eins og í þjóðþingunum er þetta mjög góður vettvangur til þess að eiga skoðanaskipti þar um.

Við deilum líka mjög mörgum þáttum sem fjallað er um í alþjóðlegu samstarfi. Ég nefni þar sérstaklega norðurslóðamálin. Þjóðþingin öll á Norðurlöndum hafa verið með sérstaka stefnumótun í norðurslóðamálum og því tengist að sjálfsögðu mikilvægt viðfangsefni sem eru loftslagsbreytingar og hlýnun andrúmsloftsins. Það er að sjálfsögðu viðfangsefni sem við eigum að fjalla um á vettvangi Norðurlandanna því að það skiptir okkur öll máli hvernig þróun verður í þeim efnum.

Ég tel því mikilvægt að við höldum áfram að styrkja og styðja við samstarf Norðurlandanna á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að þetta er kannski það alþjóðlega og fjölþjóðlega samstarf sem við höfum ef til vill hvað mest gagn af og getum haft hvað mest upp úr um leið og okkar rödd skiptir þar máli og við getum haft heilmikil áhrif. Þó að við séum fámenn skiptir okkar framlag og okkar sjónarmið og okkar raddir máli á vettvangi norræns samstarfs og það er hlustað á það sem við höfum þar fram að færa. Ég tel að við getum öll sameinast um það, og er reyndar sannfærður um að á Alþingi Íslendinga eru fáar ef nokkrar raddir í þá veru að við eigum ekki að styrkja og efla það samstarf.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að ég hef eins og aðrir vissar áhyggjur af því að dregið hefur verið úr framlögum til norræna samstarfsins. Það má segja að það sé afleiðing af efnahagskreppunni sem hér hefur riðið yfir bæði hjá okkur og annars staðar. Ríkin hafa verið að draga úr kostnaði og gæta aukins aðhalds og það hefur að sjálfsögðu komið niður á norræna samstarfinu einnig en það er mikilvægt, og ég tek undir með hæstv. ráðherra, að við reynum að vinna að því að frekar bæta þar í ef eitthvað er. Ég tel að það sé sá vettvangur í alþjóðastarfi þar sem við ættum helst þá að auka okkar hlut ef við eigum þess nokkurn kost.

Virðulegur forseti. Ég vil fyrir mína hönd og okkar í þingflokki Vinstri grænna lýsa ánægju með þá formennskuáætlun sem hér hefur verið kynnt og fullvissa hæstv. ráðherra að hún á okkar stuðning í því verkefni sem fram undan er á næsta ári af hálfu Íslands sem formennskuríkis í norrænu samstarfi.