143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er nýliði í Norðurlandaráði. Ég sat mitt fyrsta þing Norðurlandaráðs í Ósló í síðustu viku og hagaði mér þar að mörgu leyti svipað og ég gerði á upphafsárum mínum í þinginu, fór mér að engu óðslega og lét lítið á mér bera, enda ekki mikið fyrir það eins og menn hér vita mætavel. Ég reyndi að læra og sjá hvernig þetta færi allt saman fram.

Það var mikil umræða um grein sem þingmaður Venstre í Danmörku, Karen nokkur Elleman, skrifaði í aðdraganda þingsins þar sem hún talaði um Norðurlandaráð sem nokkurs konar kaffiklúbb þingmanna og embættismanna. Greinin var gagnrýnd mikið en vakti líka upp töluverða umræðu og að mínu mati þarfa umræðu. Við eigum að sjálfsögðu alltaf að vera að velta því fyrir okkur hvort verið sé að fara vel með skattpeninga almennings. Þótt það séu ekki miklir fjármunir sem Ísland ver í samstarfið í samanburði við aðra fer engu að síður í það tími og kraftar og við eigum að nálgast hlutina með gagnrýnu hugarfari og velta því fyrir okkur hvort við séum að nýta tíma okkar vel.

Mig langar í ræðu minni um formennskuáætlunina að lýsa fyrstu viðbrögðum mínum og hugrenningum gagnvart þessu samstarfi. Formennskuáætlunin sem hæstv. ráðherra kynnti fyrr í umræðunni er mjög metnaðarfull. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu metnaðarfull hún er, sérstaklega á sviði umhverfismála og sjálfbærni og hinu svokallaða norræna lífhagkerfi sem hæstv. ráðherra fjallaði um. Ég fagna því. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur verið gagnrýnd svolítið fyrir skort á áherslum í umhverfismálum og þarna birtist skýr vitnisburður um að henni sé ekki alls varnað í þeim efnum. Hún hefur miklar og jákvæðar hugmyndir þar að lútandi og það er vel. Ég fagna því.

Biophilia Bjarkar Guðmundsdóttur er eitt af þeim verkefnum sem þarna eru kynnt til sögunnar og lögð er áhersla á. Ég hef sjálfur farið með börnum mínum og öðrum í gegnum það sem verkefnið hefur upp á að bjóða þar sem menn vinna saman með samspil mynda og tónlistar. Það er ákaflega vel heppnað og ákaflega vel til þess fallið að þroska börn í því vinna með myndmál og tónlist saman. Þarna er gríðarlega skemmtilegt verkefni á ferðinni. Norræni spilunarlistinn er líka verkefni sem lýsir miklum metnaði og í raun og veru, þótt hann sé fullkomlega þarfur, er tæknin á svo mikilli fleygiferð í þeim efnum að það mætti fara enn þá lengra og sjá fyrir sér að meðfram þeim spilunarlista kæmu Norðurlöndin og Norðurlandaráð sér saman um einhvers konar sameiginlega vefgátt þar sem boðið er upp á sjónvarpsefni þessara ólíku landa. Það væri til dæmis byggt á sama tæknigrunni og Netflix sem nýtur mikilla vinsælda á Íslandi í dag þó að almenningur á Íslandi þurfi að sækja sér það eftir krókaleiðum við litla hrifningu sumra fyrirtækja.

Þar til dæmis má sjá fyrir sér að með litlum tækjum á borð við Apple TV væri hægt að bjóða upp á eina rás þar sem í boði væri norrænt sjónvarpsefni. Það er auðvitað mjög misjafnt að gæðum en við sjáum til að mynda árangur Dana. Þeir tóku meðvitaða ákvörðun um að búa til vandað sjónvarpsefni og mennta Dani með því að skemmta þeim. Við sjáum það líka á efnisvalinu, á sjónvarpsefninu sem hefur verið að slá í gegn með þeim, hvort sem það er Forbrydelsen, Örninn, Borgin og núna Brúin, að það er í sífellu verið að vinna með samspil ólíkra stofnana samfélagsins, framkvæmdarvaldið, dómsvaldið og alþjóðavæðinguna, alþjóðaglæpastarfsemi, hvernig verið er að ráðstafa fjármunum o.s.frv. Það er því í raun og veru í gegnum mjög gott sjónvarpsefni verið að mennta þjóðfélagsþegnana í því hvaða ákvarðanir skipta máli og verið að gera þá að meiri, betri og öflugri þátttakendum í lýðræðissamfélagi.

Það eru mismunandi sjónarhorn á verkefnin sem ég var að fjalla um. Á Íslandi eru einkum mismunandi sjónarmið um hvort ríkið eigi að sinna verkefnum á borð við menningarverkefni, hvað þjóðin hefur að gera með ólíkar menningarstofnanir o.s.frv. Það eru sjónarmið sem kallast svolítið á. Stundum hafa þau verið tengd einhverju sem nefnt er landsbyggð versus höfuðborgarsvæði en ég held að það sé alls ekki þannig. Ég held að sjónarmiðin finnist hvort sem er í hinum dreifðari byggðum eða í þéttbýlinu. Það er mikilvægt fyrir okkur að taka umræðuna um það hvers vegna þetta skiptir máli, vegna þess að þetta snýst að mörgu leyti um sjálfsmynd þjóðarinnar. Það er aldrei hægt að komast nær sjálfsmynd sinni eða jafn nálægt henni og þegar maður er að bera sig saman við aðra.

Maður fer fyrst að velta því fyrir sér hvað það þýði að vera Íslendingur í norrænu samstarfi þegar maður fer að bera sig saman við það að vera Dani eða Norðmaður eða Svíi. Þarna koma saman ólíkir menningarheimar sem eiga sér sameiginlegan uppruna og að mörgu leyti sameiginlegt tungumál og að mínu mati styrkir það mjög sjálfsmynd Íslendinga að taka þátt í þessu samstarfi. Ég held að það sé líka mjög hollt fyrir okkur stjórnmálamenn sem þarna leiðum saman hesta okkar, sérstaklega þá sem hafa áhyggjur af fullveldi þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi, að sjá hversu vel Dönum, Svíum og Finnum gengur í að nýta fullveldi sitt í alþjóðlegu samstarfi og líka að sjá hversu öflugar þessar þjóðir eru, hversu stórt markaðssvæði Norðurlöndin eru þegar þau eru saman komin í Norðurlandaráði og hversu öflug heild þau geta orðið í alþjóðlegu samstarfi, eins og til dæmis innan Evrópusambandsins.

Stór hluti af okkar vinnu, alla vega frá því að ég byrjaði þátttöku mína í Norðurlandaráði núna í sumar, hefur snúist um hinar svokölluðu landamærahindranir eða stjórnsýsluhindranir á milli landa. Það er auðvitað í grunninn það sem við erum að fjalla um sem erum þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga veginn til enda í umsókn sinni um Evrópusambandið, þ.e. að afnema landamærahindranir og stjórnsýsluhindranir í miklu stærri stíl en við höfum verið að gera þannig að við séum þátttakendur á stóru atvinnu-, stjórnmála- og menningarsvæði. Allar þær hindranir sem landsmenn okkar rekast á þegar þeir flytja sig á milli landa og eiga að geta tekið réttindi með sér, hvort sem þeir eru að fara til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs eða Finnlands, er auðvitað eitthvað sem skiptir gríðarlega miklu máli í því samhengi.

Mig langar í lok ræðu minnar að fjalla um þá ákvörðun sem tekin var, og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti áðan, um að halda sameiginlega verðlaunaafhendingarhátíð fyrir verðlaun Norðurlandaráðs sem eru veitt í fimm ólíkum flokkum, í gerð kvikmynda, sjónvarpsefnis, bókmennta, á sviði umhverfis og nú síðast í barnabókmenntum. Verðlaunaafhendingin sem var í Ósló síðustu viku tókst mjög vel. Ég held að hún hafi verið hið þokkalegasta sjónvarpsefni, en það sem er ekki síður mikilvægt er að þetta ýtir undir hugsun, ýtir undir mikilvægi þess að unnið sé á ólíkum sviðum af metnaði.

Ef við tökum stöðuna gagnvart til dæmis barnabókmenntum er það auðvitað þannig að ef vel er gert höfða bækurnar til barna og unglinga. Ef skrifað er af metnaði og ef því er lyft upp og gert hátt undir höfði — ég get nefnt bækurnar um Harry Potter þótt þær séu ekki norrænar að uppruna. Ég held að allir foreldrar heimsbyggðarinnar standi í mikilli þakkarskuld við höfundinn vegna þess að bækurnar glæddu svo mikið áhuga barna og unglinga á lestri. Ég held að það sama megi segja um framleiðslu sjónvarpsefnis í Danmörku. Það kemur á daginn að þegar sjónvarpsefni er framleitt af miklum metnaði og miklum gæðum slær það í gegn, ekki bara í sínu heimalandi heldur um heim allan, enda er verið að sýna danskt sjónvarpsefni mjög víða, um alla Evrópu, og það nýtur mikilla vinsælda á Íslandi.

Ég held að ef við horfum til þeirrar dagskrárgerðar sem er verið að bjóða Íslendingum upp á á RÚV megum við draga margan lærdóminn af Dönum í því efni. Ég held einfaldlega að við getum lært mjög mikið innan Norðurlandaráðs. En það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að vera rödd á þeim vettvangi sem þjóð sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera í miðju Atlantshafinu, sjálfstæð þjóð sem byggir afkomu sína að mörgu leyti á mikilli nærveru við óblíð náttúruöfl. Það er auðvitað eitthvað sem við komum með að borðinu. Það eru áherslupunktar sem birtast í þeirri metnaðarfullu formennskuáætlun sem hæstv. ráðherra kynnti fyrr í umræðunni og það er vel. Ég vil nota tækifærið í lok ræðu minnar til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum.