143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra norrænna samstarfsmála þetta tækifæri til að ræða formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Skýrsla samstarfsráðherra og umræða um hana er í takt við þá miklu áherslu sem ríkisstjórnin leggur á norrænt samstarf, eins og fram kom í máli forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi á dögunum, sérstaklega það sem snýr að okkur hér á Vestur-Norðurlöndum og norðurslóðum eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að fjalla í nokkrum orðum um formennskuáætlunina og víkja síðan einnig að norrænu samstarfi í Norðurlandaráði sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Ég vil að sjálfsögðu fagna formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og vil geta þess að áætluninni var vel tekið af formennskulandinu í Norðurlandaráði árið 2014, þ.e. Svíþjóð, á Norðurlandaráðsþingi í síðustu viku. Þær áherslur sem komu fram í formennskuáætluninni eru í góðu samræmi við þær áherslur sem eru um þessar mundir í norrænu samstarfi og tvinnast einnig vel saman við þau svið sem við Íslendingar höfum haft til umfjöllunar og stöndum framarlega á.

Í einu af meginverkefnum áætlunarinnar, Norræna lífhagkerfinu, renna saman áherslur á grænan hagvöxt og sjálfbæra þróun. Þetta verkefni ber vott um skýra framtíðarsýn þar sem tengd eru saman sjálfbær hámarksnýting náttúruauðlinda, hagvöxtur og velferð norrænna samfélaga með sérstakri tengingu við menntun þar sem sköpun verður í fyrirrúmi, eins og í Biophilia-verkefninu sem fjölmargir þingmenn hafa komið inn á hér í fyrri ræðum.

Ég held að mikilvægt sé að við ræðum í víðu samhengi um til hvers við ætlumst af norrænu samstarfi. Ég fann það á Norðurlandaráðsþinginu sem haldið var í Ósló í síðustu viku að það eru ekki bara Íslendingar sem vilja aukið og meira samstarf, þann vilja er einnig að finna hjá öðrum þjóðum. Mig langar að koma aðeins inn á það á eftir.

Það sem kom mér þó samt mest á óvart er að samstarf Norðurlandanna er víðtækara, þéttara og mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir. Hv. þm. Róbert Marshall kom hér inn á blaðagrein sem einn fyrrverandi ráðherra Dana og fyrrverandi samstarfsráðherra skrifaði fyrir Norðurlandaráðsþingið. Hún vakti töluverða athygli. Ég lít á hana sem jákvætt innlegg um að það megi breyta og það megi bæta og styrkja megi þetta samstarf. Ég held að flestir hafi litið þannig á að jafnvel þótt þar hafi komið fram gagnrýni á samstarfið hafi menn verið almennt séð, í hvaða flokki sem þeir standa, sammála um að skýra þurfi einfaldlega betur út fyrir almenningi hversu mikilvægt þetta samstarf er.

Á Norðurlandaráðsþinginu voru í brennidepli málefni ungs fólks á Norðurlöndum, alþjóðlegt samstarf, sjálfbær þróun, stjórnsýsluhindranir, velferðar-, menningar- og menntamál. Gaman er að segja frá því að nú hefur farið fram mikil umræða um aukið samstarf á sviði öryggisvarna og utanríkismála, en það er í rauninni málaflokkur sem var lítið til umræðu innan Norðurlandaráðs og flestir litu á að mundu lúta að sjálfsstjórnarrétti ríkjanna. En þetta var ein af áherslum Norðmanna í formennskuáætlun þeirra á þessu ári og aukinn áhugi er á samstarfi í þá áttina.

Í september sótti ég hringborðsumræðu um einmitt þessi mál, varnarmál, með þátttöku þingmanna í Norðurlandaráði, norrænna varnarmálaráðherra og þingmanna í þingnefndum þjóðþinganna sem hafa varnarmál á sinni könnu. Þar var sérstaklega fjallað um að bæði Finnar og Svíar ætla að taka þátt í loftrýmiseftirliti yfir Íslandi sem á sér stað í febrúar næstkomandi, en Norðmenn fara með loftrýmisgæsluna á vegum NATO. Hvorki Svíar né Finnar eiga aðild að NATO, en þeir ætla engu að síður að taka þátt í þessu loftrýmiseftirliti á forsendum norræns samstarfs sem ég tel ótvírætt vitni um að aukinn vilji sé til þess að taka meiri þátt og vinna meira saman á því sviði. Þetta sneri að sjálfsögðu líka að björgunaraðgerðum sem eru gríðarlega mikilvægar, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga og alla þá sem búa á norðurslóðum.

Það var líka merkilegt að aukinn vilji er innan Norðurlandanna að standa saman að málefnum sem snúa að Evrópusambandinu. Við vitum sem er að Evrópusambandið hefur sett viðskiptaþvinganir á Færeyjar út af ákvörðun þeirra um aukinn kvóta sér til handa varðandi Atlantshafssíldina, en bæði Finnar og Svíar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna sem fór fram á þeim forsendum að þeir væru að virða hið svokallaða Helsingforssamkomulag. Helsingforssamkomulagið á rætur að rekja til ályktunar sem miðjuflokkarnir á Norðurlandaráðsþinginu, sem Framsóknarflokkurinn á sæti í, lögðu fram á árinu 2009. Þá var talað um að ekki mætti verða til einhvers konar norræn nefnd innan ESB og menn óttuðust svolítið þetta samstarf, en það kom skýrt fram að aukinn vilji væri til þess að standa saman í þeim málum eins og öðrum, líkt og þessi ákvörðun bar svo skilmerkilega með sér.

Þau tvö mál sem ég hef nefnt, bæði varðandi varnarmálin og Evrópusambandið, eru til marks um það hversu skýr samhljómur er á milli hagsmunamála Íslendinga sem er efst á baugi í stjórnmálaumræðu á Íslandi og á norrænum vettvangi. Það sýnir enn á ný gildi norræns samstarfs fyrir Íslendinga, sem er að sameina vinnu við framgöngu ákveðinna mála, bæði á Íslandi og á norrænum vettvangi.

Mig langar sérstaklega að taka fram að ég er afar ánægður með þá samstöðu sem hefur myndast innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Þar eiga sæti stjórnarflokkarnir og flokkarnir sem sitja í stjórnarandstöðu. Mikil samstaða myndaðist um að við mundum reyna með einum eða öðrum hætti að sporna gegn þeim boðaða niðurskurði sem átti að falla á Norræna eldfjallasetrið sérstaklega. Tekin var ákvörðun um það innan fjárlagahóps Norðurlandaráðs að minnka niðurskurðinn, en því miður var þeirri ákvörðun snúið við innan ráðherraráðsins og eitt látið yfir alla ganga. Því miður. En samstaðan var skýr og viljinn var til staðar hjá Íslendingum að vernda þessa stofnun sérstaklega.

Það sama má segja um Norræna blaðamannaskólann sem er afar mikilvægur vettvangur fyrir norræna blaðamenn, íslenska sérstaklega, til að hitta kollega sína á Norðurlöndum og endurmennta sig, kannski í rauninni eini vettvangurinn til þess. Í staðinn fyrir að leggja þann skóla niður var honum breytt sem kemur fram í niðurskurði, en skólanum verður hlíft að öðru leyti og vonandi verður hægt að efla hann á komandi árum.

Það sama má segja um Norræna sumarháskólann. Hann átti að renna inn í Nordforsk sem sér um norrænt rannsóknasamstarf og veitir ráð og kemur með tillögur um norrænar vísindastefnur. Menn höfðu áhyggjur af því að þeir fjármunir mundu hverfa en eyrnamerkt var sérstakt fjármagn (Forseti hringir.) þeim til handa.

Ég þakka hv. ráðherra fyrir innlegg hennar hér og til norrænna samstarfsmála og vonast til þess að Íslandsdeild Norðurlandaráðs (Forseti hringir.) eigi gott samstarf á næstu árum.