143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:56]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið mjög áhugaverð. Það hefur verið gaman að hlusta á innleggin frá þingmönnum og það hefur verið sérstaklega gaman að finna fyrir sameiginlegum áhuga okkar og stuðningi sem snýr að norrænu samstarfi. Ég held að þetta geti verið mjög gott upplegg og stuðningur við þá formennskuáætlun eða það verkefni sem við erum að fara í á næsta ári, en líka þegar kemur almennt að stuðningi við norrænt samstarf, hvernig við getum byggt það upp enn frekar, hvað við getum gert meira.

Við gegndum síðast formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 2009. Það var ekki auðvelt ár hér á Íslandi. Það þurfti að taka miklar og erfiðar ákvarðanir varðandi niðurskurð, fyrir áramótin 2008–2009 mátti segja að þurft hafi að vinna fjárlögin upp á nýtt milli 2. og 3. umr. Menn veltu fyrir sér hvort rétt væri að við drægjum okkur úr samstarfinu en niðurstaðan varð sú að við sögðum: Nei, norrænt samstarf skiptir okkur það miklu máli að við ætlum að axla þessa ábyrgð og taka að okkur formennskuna í norrænu ráðherranefndinni og gera það vel. Og það var gert vel.

Þetta er það sem ég hef líka verið að leggja áherslu á undanfarið þegar ég hef setið fundi með samstarfsráðherrum Norðurlandanna og við höfum verið að ræða og tjá áhyggjur okkar af þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er nú í norrænu samstarfi. Við höfum bent á að fáar þjóðir hafi þurft að forgangsraða meira en íslenska þjóðin. En við höfum alltaf sagt að norrænt samstarf skipti okkur það miklu máli að við höfum ekki verið tilbúin til þess að skera niður þegar komi að því.

Í þessari umræðu hafa komið fram fjölmörg dæmi um það sem við erum að gera í norrænu samstarfi. Þegar við flytjum á milli Norðurlandanna er það nánast eins og við séum að flytja á milli Kópavogs og Hafnarfjarðar, við flytjum bara lögheimili okkar. Það er allt annað en þegar við flytjum til annarra Evrópuríkja. Bækurnar sem við lesum fyrir börnin okkar, eftir Astrid Lindgren og Tove Jansson sem skrifaði um Múmínálfana, og helstu fyrirmyndir dætra minna, annars vegar Lína Langsokkur og Mía litla, allt þetta kemur frá Norðurlöndunum, þetta er hluti af þeirri norrænu menningu sem við styðjum við.

Við höfum talað hér um stöðu kvenna í dreifðum byggðum. Við höfum talað um það hvernig við getum sameiginlega nýtt betur auðlindir okkar og (Forseti hringir.) við höfum talað um það hvernig við getum dregið úr hindrunum.

Er tími minn búinn, virðulegi forseti?

(Forseti (ÓP): Tíminn er búinn.)

Klukkan hefur nefnilega ekki verið … Get ég fengið þrjár mínútur í lokaorð?

(Forseti (ÓP): Þrjár mínútur.)

Þrjár mínútur, já. Það er gífurlega mikið sem hægt er að gera í norrænu samstarfi og fyrst ég fæ að syndga aðeins upp á náðina varðandi tíma minn vil ég sérstaklega nefna, eins og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á, að þó að við teljum mikilvægt að stuðla að norrænu samstarfi þurfum við að sjálfsögðu líka að vera tilbúin til að endurskoða þær áherslur sem við höfum í norrænu samstarfi. Ég tel að þegar við horfum t.d. á skiptingu fjármuna í norrænu samstarfi endurspegli þeir ekki þær áherslur sem við höfum innan lands í skiptingu fjármuna. Dæmi um það er að við setjum tæplega helminginn af íslensku fjárlögunum í velferðarmál en þær prósentutölur eru mun lægri í norrænu samstarfi. Eitt af því sem við eigum að horfa til er hvernig við getum stutt við og byggt enn frekar upp norræna velferðarmódelið í gegnum norrænt samstarf. Sú skýrsla sem Bo Könberg hefur verið að vinna að og snýr að samstarfi varðandi heilbrigðismálin verður stórt skref í þá átt að auka samstarf á milli Norðurlandanna í því sem við erum einna best í, þ.e. í heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu. Það eru því að mínu mati mjög spennandi tímar fram undan þegar kemur að norrænu samstarfi.