143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir að hefja þessa umræðu. Ég þakka einnig hæstv. fjármálaráðherra fyrir innlegg hans áðan. Ég held að sóknaráætlunin hafi út af fyrir sig verið ágæt þegar hún var lögð fram á sínum tíma. Við í Framsóknarflokknum gagnrýndum hana hins vegar vegna þess að við töldum að fjármögnunin væri um margt óraunhæf.

Ég er ósammála hv. þingmönnum Katrínu Júlíusdóttur og Svandísi Svavarsdóttur um að það sé rangt að allt hafi gengið eftir sem þar kom fram. Það er vissulega rétt að peningar hafi skilað sér úr bankakerfinu. Það er jákvætt, ég held að allir hafi verið sammála um það, en hefur verið eða er pólitísk samstaða um að selja ríkisbankana? Ég er ekki viss um það.

Það lá fyrir að ekki yrði pólitísk samstaða á Alþingi um auknar skattálögur á sjávarútveginn. Það liggur líka fyrir að hluti af því var óframkvæmanlegur. Þess vegna þurfti að endurskoða þetta.

Síðast en ekki síst hafa fáir minnst á það hér að forsenda fjárfestingaráætlunar var að hér yrðu rekin hallalaus fjárlög. Það gekk ekki eftir. Síðasta ríkisstjórn hafði það að markmiði sínu að hér yrði hagvöxtur á bilinu 3–4% í lok síðasta kjörtímabils og verðbólgan 1,6%. Síðasta ríkisstjórn var eins langt frá þessum markmiðum og hugsast getur. Í ljósi þess held ég að það sé mjög eðlilegt að við endurskoðuðum þetta.

Ég vil þó segja að mér finnst það bera vott um nýja hugsun í pólitík að hluti stjórnarandstöðunnar, eins og kom fram hjá hv. þm. Róberti Marshall, hefur vilja til aukins samstarfs með meiri hlutanum. Ég fagna því og vonast til þess (Forseti hringir.) að hægt verði að hrinda því í framkvæmd á einhvern hátt.