143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Til að byrja með vil ég í þessari seinni ræðu minni fjalla um það sem hv. þm. Óttarr Proppé nefndi í sinni ræðu og er hárrétt, að þessi umræða er nokkuð pólaríseruð ef svo má að orði komast. Rökin eru líka býsna mikilvæg, þ.e. að hér sjáum við verkefni og viðfangsefni sem eru sett fram sem hluti af stórri og ígrundaðri áætlun sem er liður í nýrri sókn þar sem við, þáverandi ríkisstjórn ásamt þingmönnum Bjartrar framtíðar, lögðum upp í nýja sókn eftir efnahagshrunið og ætluðum hana í þágu efnahagsbata og hagvaxtar. Það var planið, það var hugsunin. Þegar við sjáum svo fjárlagafrumvarp þar sem þessi verkefni eru nánast eins og á vélrænan hátt ýmist strikuð út eða minnkuð umtalsvert læðist að manni sú hugsun, svo ég taki ekki dýpra í árinni, að það snúist ekki um efnislegt mat á þessum verkefnum eða þeirri áherslu heldur einfaldlega nákvæmlega svona pólitík sem hv. þingmaður nefndi hér og gagnrýndi, pólitík sem snýst um það að ef hinum datt það í hug verður að vera á móti því.

Það er vond pólitík, ég er hjartanlega sammála því. Hún er ekki bara vond út af því heldur vegna þess að þá vantar okkur leiðarljósið í staðinn. Hvert er hið raunverulega leiðarljós í staðinn? Er það bara eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, að ef peningarnir fara út í samfélagið og ef við trúum því að hlutirnir fari að gerast fari þeir einhvern veginn að gerast?

Þetta dugar ekki, við þurfum að hafa einhverja von, eitthvert leiðarljós, eitthvert plan. Hvar er þessi framtíðarsýn? Hver er atvinnustefnan? Hver eru markmið nýrrar ríkisstjórnar þegar þessir sprotar eru (Forseti hringir.) fótum troðnir hver á fætur öðrum?