143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur um margt verið mjög málefnaleg og til hennar er ekki boðað sérstaklega til að hrósa síðustu ríkisstjórn eða níða skóinn af núverandi, heldur fyrst og fremst vegna þess að þörf er á því að efla fjárfestingu og koma hlutunum betur í gang en verið er að gera. Þörf er á því að búa til plan og fylgja áætlun í þeim efnum.

Hæstv. fjármálaráðherra segir: Fjármagnið mun finna sér farveg ef maður trúir því að það geri það. Ég get svo sem alveg verið sammála honum í því og get líka deilt með honum aðdáun á Mary Poppins og ánægjulegt að hann hafi séð það fína leikrit, en það er bara ekki þannig með skapandi greinar. Nýleg skýrsla um hagræn áhrif skapandi greina sýnir það klárlega að það þarf svokallað „kick-start“, með leyfi forseta, til að koma hlutum í gang. Síðan skapa skapandi greinar mörg störf, miklar tekjur og eftirsóknarverð störf fyrir unga fólkið.

Það er auðvitað grátlegt að horfa upp á það að hér sé verið að setja, þó ekki sé nema bara þennan hluta áætlunarinnar út af borðinu sem felur í sér fjármuni upp á 2,8 milljarða. Og ef menn horfa aðeins á möguleikana sem felast í því eða hefðu falist í því að láta fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna skila sér, 1,5 milljarðar þar; ef menn hefðu útfært náttúrupassann, 1 milljarður þar; ef menn mundu hverfa frá fyrirhugaðri lækkun á tekjuskatti, 5 milljarðar þar. Það eru fjármunir til. Og ef menn horfa líka til arðsins sem er að koma úr Landsbankanum. Það eru til fjármunir til að gera þessa hluti. Ef eignarhaldið skiptir máli er Björt framtíð tilbúin til að sleppa af því hendinni. Það skiptir engu máli hvaðan þessar hugmyndir eru komnar, bara að ríkisstjórnin búi sér til plan til að efla hagvöxt (Forseti hringir.) á Íslandi.