143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera lítið úr því að ekki er vanþörf á því að efla starfsemi og atvinnulíf á Suðurnesjum. Ég geri heldur ekki lítið úr því að ánægjulegt væri að fá þá merku og góðu stofnun sem Landhelgisgæslan er til Keflavíkur og Njarðvíkur, í Keflavíkurhöfn eða hvar sem er, en mér fyndist það heldur aumt ef ekki kæmi einhver þingmaður, þegar allir þingmenn Suðurkjördæmis flytja tillögu um að taka virta stofnun í Reykjavík og flytja hana með manni og mús úr kjördæminu, og segði: Þetta er ekki bara svart eða hvítt. Það virðist alltaf vera mjög auðvelt að segja: Nú tökum við bara stofnanirnar og flytjum þær úr Reykjavík. En hér býr fólk og hér á fólk heima og Reykjavík þarf náttúrlega líka að hafa atvinnulíf. Reykjavík fór mjög illa út úr hruninu. Mér finnst rétt að fólk doki aðeins við.

Um mjög merka stofnun eins og Landhelgisgæsluna vil ég segja að það getur vel verið að forsendur nefndrar skýrslu séu vitlausar og mér finnst sjálfsagt að gera aðra úttekt á því hvort það borgi sig að flytja hana en skoðum heldur, virðulegi forseti, að flytja hluta hennar. Kannski er alveg rétt að flytja hluta af starfseminni til Keflavíkur og í Helguvíkurhöfn, en ég get ekki séð að Reykjavíkurhöfn sé allt í einu orðin þannig að það sé orðið eitthvert meiri háttar mál að Landhelgisgæslan hafi meginaðstöðu í Helguvík en ekki í Reykjavíkurhöfn. Ég skil það ekki.

Í þessum sal verða hlutir gjarnan svartir eða hvítir. Ég minni á mjög merka starfsemi sem er mikilvæg fyrir þessa þjóð og hefur sýnt sig og sýnir sig alltaf aftur og aftur. Það er Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð. Þar spilar Landhelgisgæslan náttúrlega stórt hlutverk og er hluti af björgunar- og almannavarnaapparati okkar. Við megum ekki bara henda þessu og segja að það skipti engu máli og að allt sé vitleysa sem er í skýrslunni frá 2011. Menn segja að hún sé vitlaus því að til lengri tíma litið verði rekstrarkostnaður minni. Það stendur hins vegar í skýrslunni að það muni kosta 606 millj. kr. meira að reka apparatið á ári hverju á Suðurnesjum. Segjum svo að forsendurnar séu rangar eða eitthvað svoleiðis þá mega þær vera ansi mikið rangar til að það sé ekki að minnsta kosti 200 millj. kr. dýrara að reka þetta frá Suðurnesjum en héðan.

Ég mun sannarlega veita þessari þingsályktunartillögu framgöngu, en með það fyrir augum náttúrlega að skoðað verði hvort ekki sé einhver munur á svörtu og hvítu. Auðvitað er það alveg ljóst.

Það var lagt til í þinginu að skipulagsvaldið yrði tekið af Reykjavík af því að Reykjavík hafði á áætlun sinni að flytja flugvöllinn. Reykjavík má ekki gera það. Það er náttúrlega alveg ljóst. Vonandi tekst okkur einhvern tímann að koma flugvellinum burt og þá er alveg ljóst að Landhelgisgæslan verður ekki rekin héðan. Hugsum þetta ekki alltaf svart eða hvítt eins og hér er gert.

Ég þekki talsvert til fyrirtækis sem rekur útgerð sína frá Keflavíkurflugvelli en er með höfuðstöðvar í Reykjavík; það gengur ágætlega. Auðvitað er það enginn dónaskapur við Suðurnesjamenn eða neitt svoleiðis að reikna með því að ekki flytji allir starfsmenn Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur. Meira að segja margt starfsfólk á sjúkrahúsinu í Keflavík, sem er búið að vera þar í fjölmörg ár, fer úr Reykjavík. Mér finnst aðeins þurfi að skoða þetta með það í huga. Ég þykist viss um að það geti verið skynsamlegt að skipta starfseminni eitthvað upp, en þá mundi ég vilja sjá það gert en ekki eitthvað svart/hvítt eins og hér er lagt upp með. Ég vona að þingnefndin sem fær tillöguna til umfjöllunar skoði málið frá þeim sjónarhóli.