143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:11]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Umræða um flutning Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvöll skýtur annað slagið upp kollinum úti í þjóðfélaginu og ratar hingað inn á þing í formi þingsályktunartillagna.

Ég vil taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur — sem er ekki þingmaður Suðurkjördæmis — að ekki sé rétt að nálgast þetta á einhverjum atvinnuforsendum, að það sé verið að færa störf héðan og þangað af því að það sé eitthvað lakara ástand á Suðurnesjum. Ég vil skoða þetta bara út frá öryggissjónarmiðum og hagræðingarsjónarmiðum.

Ef kafað er ofan í skýrsluna má sjá að stór hluti kostnaðarins er sennilega keyrsla starfsmanna til Keflavíkur. Þá er gengið út frá því að þeir búi í Reykjavík, það er einn hluti af kostnaðinum. En það má líka telja á móti að Skógarhlíð er talsvert dýrt húsnæði þannig að það má alveg skoða að færa þá starfsemi yfir til Keflavíkur, ekki af því að það vanti störf þar heldur hagræðingarinnar vegna, til að hafa starfsemina á sama stað.

Nú þegar er Landhelgisgæslan með umtalsverðan rekstur á Keflavíkurflugvelli í aðstöðu sem varnarliðið hafði áður og er því vægast sagt mjög rúmt um þá starfsemi og húsakynnin bjóða upp á mikla möguleika til uppbyggingar án mikils kostnaðar. Ekki er aðeins um mikið rými að ræða heldur einnig hentugar byggingar svo sem flugskýli og vel varðar byggingar með miklum tengingum, svo sem ratsjár- og fjarskiptasambandi. Eftir að hafa komið þarna og skoðað þetta finnst mér liggja beinast við að sú starfsemi sem lýtur að þessu, Vaktstöð siglinga, henti vel þar inn, það þurfi engan aukakostnað þar. Þar er fylgst með umferð í landhelgi Íslands og skiptir þá ekki máli hvort það sé á sjó eða í lofti. Miklir hagræðingarmöguleikar felast í því að hafa alla starfsemi Landhelgisgæslunnar á sama stað auk þess sem það ætti að leiða til öruggari þjónustu.

Landhelgisgæslan sinnir nú faglegum rekstri og starfsmannahaldi Vaktstöðvar siglinga með samningi við Neyðarlínuna sem byggir á samkomulagi Neyðarlínu við fyrrum Siglingamálastofnun um rekstur stöðvarinnar. Fjárveiting vegna starfsemi Vaktstöðvar siglinga er hjá Siglingastofnun, nú Samgöngustofu, en Neyðarlínan fær það fjármagn og gerir samning við Landhelgisgæsluna um að annast daglegan rekstur stöðvarinnar. Er ekki hægt að einfalda dæmið eitthvað?

Til að ná fram meiri hagræðingu, skilvirkari stjórnun og betri nýtingu fjármagns er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag á rekstri Vaktstöðvar siglinga með það í huga að bæta siglingaöryggi við Ísland og ná fram aukinni samþættingu við verkefnið á sviði leitar og björgunar sem og öryggis- og löggæslu á hafinu. Í því sambandi er eðlilegast að skoða að færa verkefnið alfarið yfir til Landhelgisgæslunnar sem vaktar nú þegar á Keflavíkurflugvelli landhelgi Íslands. Með auknum skipasiglingum um norðurslóðir er horft til aukins eftirlits og endurskoðunar á öryggismálum hér í norðurhöfum. Þar er helst horft til Íslands og þá Keflavíkurflugvallar sem sameiginlegrar alþjóðlegrar björgunarstöðvar, en einnig er verið að skoða Noreg. Það er því verið að skoða fleiri möguleika.

Á mikilli ráðstefnu um málefni norðurslóða sem haldin var í Hörpu í október sl. var mikið rætt um öryggismál og ákveðið að hópurinn hittist aftur á Akureyri í mars á næsta ári og á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli í maí og ræði m.a. leit og björgun í norðurhöfum. Það er því mikið atriði að við hefjum sem fyrst markvissan flutning Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvöll til að styrkja grunninn að því að alþjóðleg björgunarstöð verði staðsett hér á landi. Alþjóðaflugvöllurinn styrkir það einnig því að mikið atriði er að björgunarsveitir séu fljótar á staðinn hvaðan sem er úr heiminum. Nýliðið atvik þar sem eldur kom upp í flutningaskipinu Fernöndu á hafi úti ætti að ýta við okkur með þessi mál.

Fjölmörg fleiri verkefni má nefna sem hentugt er að flytja til Landhelgisgæslunnar í hagræðingarskyni svo sem fiskveiðieftirlit, viðhald, siglingarvita og sjúkraflug. Landhelgisgæslan hefur gríðarmikinn viðbúnað í tækjum, mannskap, þekkingu og aðstöðu allri sem kostar mikið fé. Auk þyrlna, varðskipa og smærri báta rekur Gæslan fjölnota eftirlits- og björgunarflugvél sem jafnframt er sérstaklega vel útbúin til sjúkraflugs.

Það hlýtur að vera markmið að hafa eina öfluga, alþjóðlega björgunarstöð á landinu með þyrlur staðsettar í öllum landsfjórðungum. Byrjum að vinna eftir langtímamarkmiði. Það hlýtur að vera markmið okkar að vera með þyrlur í öllum landsfjórðungum til að tryggja eins og hægt er öryggi sjófarenda. Ég segi að sjófarendur eiga það skilið.