143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta er ekkert sem við gerum bara í einu vetfangi. Ég fagna því og er alveg sammála honum um að framtíðin liggur þar, möguleikarnir eru þarna á Keflavíkurflugvelli, þar er öll aðstaða, það er hentugasti staðurinn til lengri tíma.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að þetta eigi ekki að snúast um eitthvert kjördæmapot, að þetta eigi ekki að snúast um að færa einhver störf. Þetta snýst ekki um hvað þeir segja í Skógarhlíð eða að færa störf, eins og ég segi. Getum við ekki verið sammála um að þetta eigi að snúast um öryggi sæfarendanna, að það sé á þeim forsendum? Hvernig getum við tryggt þeim sem mest öryggi?

Með auknum siglingum hér í norðurhöfum eru fjarlægðirnar lengri. Það sýndi sig núna þegar kviknaði í Fernöndu að björgunarskipið hefði verið fljótara á staðinn úr betri viðbragðsstöðu, t.d. í Helguvík eða í Njarðvík. Það var skip utan á björgunarskipinu, þau voru þarna í hnapp þannig að tók sinn tíma að losa björgunarskipið af öðru skipi og koma því af stað.

En eigum við ekki að gera þetta bara með tilliti til öryggis en ekki einhverra starfa, ekki hengja okkur í það?