143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er alveg sammála því að þungamiðjan á náttúrlega að snúast um öryggið. En mér finnst heldur ekkert að því að spyrja hvar við getum styrkt innviðina. Sú hugsun hefur legið að baki hjá mörgum sem hafa viljað flytja Landhelgisgæsluna að það muni styrkja byggðarlagið. Mér finnst sú hugsun virðingarverð. Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni að það eru heildarhagsmunirnir sem skipta máli þegar við hugsum þessi mál.

Ég vil líka horfa til sjónarmiða innan Landhelgisgæslunnar. Ég vil spyrja hvaða sjónarmið séu þar hvað þetta snertir og ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að við eigum ekki að hugsa þetta sem annaðhvort/eða, allt eða ekkert. Þetta er þróun. Landhelgisgæslan mun alltaf verða öryggisnet, einn þáttur á heima hér, annar þar. Ég get alveg fullvissað menn um að það kostaði ekki lítið að koma á samræmdu starfi í Skógarhlíðinni þar sem margir aðilar koma að. Við skulum fara varlega í að rífa það upp með rótum. Við skulum alla vega hlusta á þau sjónarmið sem þar er að finna.