143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

37. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir góðar umræður í dag. Ég heyri það að við berum öll hag Landhelgisgæslunnar fyrir brjósti, sem og hag borgaranna. Mig langar til að koma inn á þá svart/hvítu samlíkingu sem hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir og Ögmundur Jónasson notuðu í ræðum sínum. Ég er alveg sammála þeim. Ég lít ekki á hlutina sem svart/hvíta, annaðhvort/eða, eða því um líkt. Ég tel, eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kom inn á, að við verðum að sjálfsögðu að vanda til verka, horfa á allar hliðar og skoða hlutina vel ofan í kjölinn þegar um svo stórt verkefni og mikilvægt mál er að ræða.

Það sem ég kom inn á í ræðu minni var að ég tel að úttektin sem unnin var árið 2011 hafi verið góð að mörgu leyti, en það vantaði ýmislegt inn í hana og sumar forsendur sem þar komu fram hafa breyst. Það er bara staðreynd. Það skiptir miklu máli. Við ræddum áðan til dæmis um sjúkraflug. Við vitum ekki enn þá hvernig fyrirkomulagið á því verður til framtíðar. Það er til skoðunar. Það er til dæmis einn partur af því sem skiptir miklu máli, hver sú stefna verður.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi einmitt áðan að þetta væri ekki einfalt mál. Það er mergur málsins. Ef þetta væri einfalt mál væri ekki verið að leggja það ítrekað fram. Þetta er akkúrat mjög flókið mál. Þetta er kostnaður sem skiptir miklu fyrir ríkissjóð.

Hv. þingmaður gerði einnig starfsmenn Gæslunnar að umtalsefni og hvort rætt hefði verið við þá hvað þeim fyndist. Ég get svarað því hér og nú að ég hef unnið að þessu máli í góðri samvinnu við starfsmenn Gæslunnar. Þær upplýsingar sem ég hef eru að þeir séu flestir jákvæðir. Benda má á að tæplega 50 manns af um það bil 200 starfsmönnum starfa nú þegar á Suðurnesjum, keyra sem sagt reglulega til vinnu, þ.e. þeir sem eru ekki búsettir á Suðurnesjum.

Stór hluti starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands vinnur á skipum og eru búsettir víða um land. Það breytir kannski ekki svo miklu fyrir þann hóp hvort menn þurfa að mæta til vinnu í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Ég tel því að þessi starfsmannaþáttur sé ekkert vandamál. Fyrir utan það, eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson kom inn á, að við eigum að sjálfsögðu ekki að vera að horfa eingöngu á slíkt eða setja þá hluti kannski efst á forgangslistann, heldur eigum við fyrst og fremst að hugsa um öryggi, það er númer eitt. Í öðru lagi hvort um hagræðingu sé að ræða fyrir ríkissjóð. Ég tel svo vera. Þess vegna legg ég þetta mál fram í þriðja sinn.

Ég tel að með því að fara betur ofan í saumana á málinu, halda því lifandi, sé um gríðarleg tækifæri að ræða fyrir okkur öll, ekki bara Suðurnesjamenn.

Eins og bent var á áðan er mjög gott húsnæði til staðar á Suðurnesjum sem mundi rýma alla starfsemi Landhelgisgæslunnar. Við erum þegar að greiða fyrir reksturinn á því húsnæði. Það stendur tómt. Ég hvet þá sem hafa áhuga á að kynna sér þetta mál betur til að skoða þetta húsnæði. Þetta er gríðarlega mikið rými, vannýtt húsnæði í fínu standi. Það er algjör synd að það standi nánast tómt og verið er að greiða fyrir þetta.

Hafnaraðstaðan er til staðar. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir dró í efa að betra væri að vera með varðskipin suður frá, þ.e. í Njarðvíkurhöfn eða í Helguvíkurhöfn, en það eru þær hafnir sem koma til greina. Staðreyndin er sú, eins og ég nefndi líka í ræðu minni áðan, að það skiptir máli. Það er styttra fyrir skipin að fara frá Njarðvíkurhöfn eða Helguvíkurhöfn sem eykur aftur öryggi sæfarenda, sem er aðalatriðið.

Varðandi akstur starfsmanna, sem var mjög stórt atriði þegar það var rætt á sínum tíma því að mikið var horft í það, vil ég benda á að samgöngur frá Reykjavík til Suðurnesja, ef við gefum okkur að flestir starfsmenn Gæslunnar byggju á Reykjavíkursvæðinu, eru mjög góðar. Ég mundi segja að Reykjanesbrautin væri besti þjóðvegur landsins, upplýst tvöföld braut, alltaf skafin og söltuð. Ég keyri sjálf daglega þá braut, þetta er frábær vegur. Það er því ekkert vandamál að keyra þarna á milli. Eins og ég sagði áðan starfa nú þegar tugir manna suður frá, því má ekki gleyma.

Ég tel mig hafa sýnt fram á í máli mínu að þörf sé á nýrri og ítarlegri úttekt vegna þess akkúrat að þetta er ekki svart/hvítt og við viljum svo sannarlega öll vanda okkur þar sem forsendur eru breyttar og sum atriði í skýrslunni frá 2011 eru beinlínis röng. Ég leyfi mér að taka undir með félaga mínum, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, að þegar ég sem Suðurnesjakona las skýrsluna upplifði ég hana sem móðgun við Suðurnes.

Til að ljúka þessu vil ég þakka enn og aftur kærlega fyrir málefnalega og góða umræðu.