143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að hér sé í raun og veru verið að ræða um tvenns konar mál. Annars vegar hvernig áætlun um afnám haftanna líti út og hvaða tímarammi sé raunhæfur til þess að slík áætlun geti gengið upp. Ég hef sagt það fyrir mitt leyti að ég sjái í sjálfu sér ekkert efnislegt í málinu, engar lagalegar hindranir sem eigi að geta komið í veg fyrir það ef væntingar eru stilltar saman að málið leysist að mjög stórum hluta á sex mánuðum, alla vega á innan við ári. En til þess þurfa væntingar að vera samstilltar, þ.e. væntingar og það sem er raunhæft að geti gerst samhliða afnámi haftanna. Það snýst að stórum hluta um afskriftir á krónueignum, verðmat þeirra. Hvernig geta menn síðan komist að niðurstöðu, leitt fram einhverja leið? Ég tel að hlutverk stjórnvalda í því efni sé ekki síst að upplýsa um sýn sína á stöðuna, að koma frá sér upplýsingum til þeirra sem eiga hagsmuna að gæta um það hvernig þau sjá fyrir sér að greiðslujöfnuður landsins líti út til framtíðar, hvernig þau sjá fyrir sér gjaldeyrissköpun fyrir íslenska þjóðarbúið til framtíðar litið.

Kannski höfum við ekki verið alveg nægilega skýr í því efni að byggja undir þá meiningu okkar að dæmið gangi ekki upp að óbreyttu, að það gangi ekki upp að lyfta höftum að óbreyttu. Reyndar sjáum við það á verðlagningu á kröfur á gömlu þrotabúin að fleiri sjá þetta en við. Þar er alls ekki gert ráð fyrir því að menn fái allar eignirnar til sín, þeir sem halda á kröfum á gömlu þrotabúin. Að öðru leyti vonast ég til þess að við getum átt gott samstarf um þetta í til dæmis samráðsnefndinni sem við höfum nýlega kallað saman í fyrsta skipti í langan tíma.