143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

útibú umboðsmanns skuldara á Akureyri.

[10:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil þá bara ítreka það sem ég sagði áðan um störf sem hægt er að vinna víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Ég er búin að lesa fjárlagafrumvarpið og geri mér grein fyrir því að það á að fækka á höfuðborgarsvæðinu en þegar kemur að fækkun starfa, að loka litlum útibúum þar sem hægt er að vinna mál alls staðar að á landinu, er einhvern veginn tilhneigingin að þau fari alltaf fyrst út. Ástæðan fyrir því núna er væntanlega eins og ráðherrann kom inn á að um tímabundna ráðningu væri að ræða, en í mínum huga hefði mátt halda þessum tveimur störfum þar og fækka á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem réttlætir í sjálfu sér fækkun úti á landi fremur en meiri fækkun á höfuðborgarsvæðinu. Það er að minnsta kosti mín skoðun.

Eins og ég segi tel ég hægt að vinna þessi mál hvar sem er á landinu. Ég hvet ráðherrann til að beita sér í því að þau störf sem eru á landsbyggðinni og eru (Forseti hringir.) væntanlega undir hnífnum núna í þeim tillögum sem við höfum ekki enn fengið að sjá (Forseti hringir.) hverfi ekki af landsbyggðinni.