143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

útibú umboðsmanns skuldara á Akureyri.

[10:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að huga að störfum alls staðar á landinu, tel að það sé mitt hlutverk sem ráðherra að huga að því. Ég nefndi áðan að það eru fyrirhugaðar breytingar sem snúa að nokkrum stofnunum í ráðuneytinu. Þar horfum við til þess hvernig við getum eflt starfsemina með það takmarkaða fjármagn sem við höfum. Þar hafa menn horft til sameiningar á Jafnréttisstofu og Fjölmenningarsetri og að réttargæslumenn mundu fara undir þá stofnun. Þetta gæti orðið grunnur að stofnun sem varðar borgaraleg réttindi. Ég sé fyrir mér að höfuðstöðvar þessarar stofnunar yrðu úti á landi, á Akureyri þar sem Jafnréttisstofa er staðsett.

Önnur verkefni sem við erum að huga að eru að skoða fýsileika þess að sameina ýmsar þjónustustofnanir fyrir fatlað fólk. Það er einmitt ein grunnhugsun hvað það varðar hvernig hægt sé að efla þjónustu þeirra stofnana hringinn í kringum landið þannig að við fáum í raun meiri þjónustu og öflugri stofnanir fyrir þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum í þessi verkefni.