143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

þjónusta umboðsmanns skuldara við landsbyggðina.

[10:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þó að ég og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir sitjum saman fjórum sinnum á viku á fundum og fljúgum milli Akureyrar og Reykjavíkur saman tölum við greinilega ekki nógu mikið saman því að ég er með nákvæmlega sömu fyrirspurn eða allt að því. Ég ætla samt að leyfa mér að flytja hana.

Ég heyrði auðvitað svör hæstv. ráðherra en ég er samt með nokkur atriði. Það er rétt að verið er að skera niður þessa starfsemi og búið er að segja upp sjö manns í Reykjavík og þessum tveimur starfsmönnum á Akureyri verður sagt upp. Eftir hagræðinguna munu samkvæmt mínum upplýsingum 56 manns vinna hjá embættinu í Reykjavík og Reykjanesbæ.

Það sem ég set spurningarmerki við við þessa aðgerð, ég geri ekkert lítið úr því að það þurfi að hagræða, er að mér finnst svolítið skrýtið að stofnun sem er þó með 56 starfsmenn sé algjörlega bundin við höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess, nema skuldavandinn sé bundinn við suðvesturhornið. Það væri gott að fá það á hreint. Staðreyndin er kannski sú að skuldavandinn sé ekki mikill úti á landi. Þá veltir maður fyrir sér hvernig skuldaleiðréttingin og áhrif hennar verða, hvort hún verði tilflutningur á fjármagni.

Ég vil einnig vita hvort einhver þjónusta verði veitt í útibúinu fyrir norðan eða á öðrum stöðum á landsbyggðinni, hvort starfsmenn fljúgi jafnvel á milli og komi og veiti þessa þjónustu.

Annars tek ég undir orð hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur hér áðan.