143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

fækkun sjúkrabifreiða.

[11:02]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um málefni sem við höfum áður tekið upp í fyrirspurnatíma og tengist fækkun sjúkrabifreiða. Mig langar að inna ráðherra eftir upplýsingum í þeim efnum. Í fyrsta lagi: Hver var aðdragandi þess, og hvernig var sá aðdragandi, að slík kröfugerð er uppi að fækka eigi sjúkrabifreiðum? Hvar og hvernig var það undirbúið?

Í framhaldi af umræðu sem þegar hefur átt sér stað hér og birtist í frétt á vefmiðli rétt áðan um fyrirætlanir ráðherra í þeim efnum spyr ég: Hvað nákvæmlega hyggst ráðherra aðhafast í því? Lætur hann boðaða fækkun sjúkrabifreiða ganga til baka eða hyggst hann endurskoða þá fyrirætlan?