143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

fækkun sjúkrabifreiða.

[11:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Líkt og kom fram við umræðu hér fyrr í vikunni hef ég ákveðið að endurskoða þá ákvörðun sem fólst í samningi sem gerður var af velferðarráðuneytinu 19. desember 2012. Sá samningur kvað á um fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni og átti að vera endanlega kominn til framkvæmda í lok þessa árs. Samningurinn laut að endurnýjun sjúkrabílaflotans og fækkun bíla úr 77 í 68.

Aðdragandi málsins var allnokkur. Vinna á vegum velferðarráðuneytisins og fagaðila í heilbrigðisþjónustu hafði staðið allt frá árinu 2008 og svo voru menn komnir niður á kröfulýsingu einhvern tíma um 2010, 2012. Það er alveg augljóst í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á fyrirkomulagi íslenskrar heilbrigðisþjónustu á síðustu þremur, fjórum árum — mikill samdráttur og niðurskurður auk þeirra aðgerða sem boðaðar eru varðandi til dæmis sameiningu heilbrigðisstofnana undir heilbrigðisumdæmin, þau sem eftir eru — að við getum ekki, ef við viljum tryggja öryggi, gengið þannig frá að þessi áform gangi eftir ótrufluð. Þar af leiðandi hef ég ákveðið að endurskoða þau og hef óskað eftir viðræðum við Rauða krossinn. Þær viðræður eru hafnar og ég vænti þess að geta tilkynnt um nýja niðurstöðu innan tíðar.