143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir flutning þessarar áfangaskýrslu. Ég hefði raunar talið að það hefði verið æskilegt að jafnvel efnisatriði vinnunnar hefðu verið kynnt fyrir fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna á þingi þannig að við gætum tekið þátt í umræðunni meira út frá efnisatriðum skýrslunnar fremur en að koma í raun með fyrstu viðbrögð við því sem hér er sagt.

Ég hefði talið það affarasælla en mun þó reyna að ræða skýrslu hæstv. ráðherra út frá þessari fyrstu hlustun. Ég vil segja það fyrst, af því að hæstv. forsætisráðherra sagði að íslensk heimili hefðu marga fjöruna sopið, sem vissulega er rétt, að það er alveg ljóst, ef við horfum á það þannig, að allir Íslendingar og allur almenningur í landinu varð fyrir forsendubresti þegar hrunið varð. Það á ekki eingöngu við um íbúðareigendur, það á við um okkur öll sem búum í þessu landi því að hér breyttust allar forsendur yfir nótt.

Það er líka mikilvægt að muna eftir því sem gert hefur verið. Ég held að það skipti máli fyrir umræðuna, við verðum að horfa á það að sem betur fer hefur staða íslenskra heimila batnað þegar við horfum á hvernig þróunin hefur verið, þar sem segja má að þeim heimilum sem höfðu neikvætt eigið fé í fasteign sinni hefur fækkað gríðarlega eftir að fjöldi þeirra náði hámarki árið 2010. Þegar við skoðum nýjustu tölur sjáum við að þessi heimili hafa ekki verið færri síðan 2008.

Sem betur fer er þróunin í rétta átt. Þar kemur margt til, m.a. það að við erum á uppleið úr kreppu og að hér hefur verið unnið á atvinnuleysi. Hér hefur verið farið í heilmiklar aðgerðir til að aðstoða skuldsett heimili og má þar nefna margar þær leiðir sem þegar hafa verið nefndar í umræðunni, hvernig vaxtabótakerfinu var beitt til aðstoðar skuldsettum heimilum, hvernig 110%-leiðinni var beitt og ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem talaði hér á undan mér og sagði að það hefði verið óskandi ef hægt hefði verið að ljúka einhverri úrlausn mála varðandi lánsveðshópinn. Það væri óskandi að þeim málum væri kippt í lag strax á þessu haustmissiri þingsins, á þessu haustþingi, fremur en að bíða með það eftir stóru heildarlausninni.

Við verðum að horfa til þess sem gert hefur verið því að ljóst er að það er mikið. Staðan hefur batnað en hins vegar held ég, og það er trú mín, að hægt sé að gera betur, eins og ég sagði fyrir síðustu kosningar. Þar hefði ég sérstaklega viljað skoða þá sem keyptu eignir á síðustu árum fyrir hrun.

Það er þó ekki hægt að segja, og þá vitna ég til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að mikilvægt sé að hér sé horft til flatra aðgerða en þó einhvers konar þaks. Ég mun spyrja hann nánar út í það á eftir. Segjum að við værum bara að skoða þennan hóp, þá er auðvitað mikilvægt að horfa á að aðstæður innan hans eru mjög mismunandi. Sumir búa að því að eignir þeirra hafa hækkað í verði þótt þeir hafi keypt á uppsprengdu verði fyrir hrun, aðrir búa við það að eignir þeirra hafa lækkað í verði, þannig að aðstæður innan þessa hóps eru líka mismunandi. Við verðum að taka allar breyturnar með þegar við ræðum þessi mál. Þess vegna er það alltaf einföldun þegar við segjum: Förum í flata aðgerð. Við verðum að horfa til tekna hópanna, eigna hópanna. Hvað býr á bak við skuldastöðuna? Öðruvísi er ekki hægt að fara í þetta.

Svo ég tæpi aðeins á því sem hæstv. forsætisráðherra fór yfir er það vissulega rétt að einhverju af þeirri aðgerðaáætlun sem samþykkt var á þingi í sumar hefur verið lokið, samanber þau frumvörp sem hæstv. forsætisráðherra nefndi, þó að ég hafi talið við umræðuna um hagstofumálið svonefnda að þar kæmi aldrei fram nákvæmlega hvernig þær heimildir áttu að nýtast beinlínis við skuldaleiðréttinguna. Það mál var mikið rætt hér og ég ætla ekki að fara aftur yfir það.

Mig langaði hins vegar að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því sem hann sagði, þ.e. að ýmsar tillögur lægju þegar fyrir og að ákveðið hefði verið að ráðast í frekari skoðun á nokkrum þeirra. Þá er eðlilegt að maður spyrji nánar út í hvaða tillögur það eru nákvæmlega sem eru tilbúnar. Er búið að ganga frá einhverjum endanlegum tillögum svo það liggi fyrir? Hefur verið fjallað um þær í ríkisstjórn? Eru einhverjar af þessum tillögum sem hér hafa verið nefndar og sagt að séu í skoðun eða á lokastigi búnar að fara í gegnum ríkisstjórn? Það verður ekki hægt að spyrja hæstvirta ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, ég sá ekki að þeir væru á mælendaskrá nema hæstv. innanríkisráðherra. Hún kemur kannski inn á afstöðuna þeim megin.

Hvaða tillögur hafa verið kynntar og farið í gegnum ríkisstjórn?

Ég hjó eftir því þegar hæstv. forsætisráðherra ræddi hugmyndir úr tillögunni um hugsanlegan leiðréttingarsjóð að hann ræddi um hluta þess svigrúms sem skapast kynni vegna samninga við kröfuhafa. Við þekkjum öll þá umræðu að kastað hefur verið fram tölum um hvert það svigrúm kunni að vera. Er það 300 milljarðar? Því hefur t.d. verið haldið á lofti sem einhverri tölu sem fara eigi í skuldaleiðréttingar. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra nefndi þarna hluta.

Hæstv. forsætisráðherra. Er komin stærðargráða á þessar tillögur? Er komið eitthvert umfang sem við getum áttað okkur á hvert er áður en við tökum frekari afstöðu til þess hvernig haldið verður áfram?

Það væri áhugavert að vita því að það liggur líka fyrir þó að það hafi ekki verið nefnt í þessari skýrslu, að ræða átti við fjármálafyrirtækin um stofnun hugsanlegs leiðréttingarsjóðs. Það kom að minnsta kosti fram, ef ég man rétt, í einhverjum fjölmiðlum. Mig langar því líka að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því: Eru þær tillögur komnar lengra? Getum við séð hvernig sá leiðréttingarsjóður á að líta út?

Það eru margar spurningar sem vakna þó að ég þakki að sjálfsögðu fyrir skýrsluna og umræðuna. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það er mikilvægt að halda þinginu vel upplýstu um framgang málsins. Það er líka mikilvægt að horfast í augu við að hér hefur margt verið gert en hins vegar hafa áherslur verið mismunandi. Við sjáum það til að mynda á þeim tölum sem kynntar hafa verið um skuldastöðu heimila, að þau heimili sem skulda mest að jafnaði eru líka þau heimili þar sem tekjurnar eru hæstar og eignirnar mestar. Það hefur til að mynda birst í þeirri greiningu sem lögð hefur var fram af Þorvarði Tjörva Ólafssyni, hagfræðingi hjá Seðlabankanum. Það er alveg ljóst að sú nálgun sem sú ríkisstjórn stóð fyrir sem ég sat í snerist fyrst og fremst um að koma til móts við þá sem voru í greiðsluvanda, þ.e. að hjálpa þeim sem áttu við greiðsluvanda að stríða, því að skuldavandinn fór ekki endilega saman við greiðsluvandann.

Um það hefur verið deilt á þinginu, en ég heyrði líka að hæstv. forsætisráðherra nefndi að það væri hugmynd að setja þak á leiðréttingar. Þá væri áhugavert að heyra hvort menn séu komnir með einhverja stærðargráðu á það þak, hvort það þak eigi þá að miðast við skuldir, tekjur eða eitthvað annað.

Ég varpa hér fram frekari spurningum vegna þessarar umræðu en ég held að það liggi líka fyrir að það er töluverð vinna eftir enn þá miðað við það sem lagt var upp með hér í sumar. Það hefur enn fremur komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann eigi ekki von á því að þessari lagasetningu ljúki fyrr en einhvern tímann í kringum áramót þannig að við munum væntanlega þurfa að bíða enn um sinn eftir því að sjá heilsteyptar tillögur. En ég vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra geti svarað einhverjum af þeim spurningum sem ég varpaði fram áðan.