143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna og þær upplýsingar sem hann veitir okkur hér í þinginu. Skuldavandi heimilanna hefur á undanförnum árum verið mjög til umræðu í þessum sal og það er rétt sem hefur komið fram að á síðasta kjörtímabili voru margir á þeirri skoðun að við ættum að reyna að finna leiðir í sameiningu til þess að koma til móts við þann vanda. Það var reynt, árangurinn er umdeilanlegur vegna þess að engu að síður, þrátt fyrir að fjögur ár hafi liðið á síðasta kjörtímabili, var skuldavandi heimilanna og málefni því tengd stærsta kosningamálið í liðnum kosningum.

Það er hálffurðulegt að hlusta á þau ummæli sem falla hér af hálfu leiðtoga stjórnarandstöðunnar að lausnir hafi verið á hverjum fingri rétt undir lok síðasta kjörtímabils. Menn höfðu fjögur ár. Hvers vegna var þeim lausnum ekki einfaldlega komið í framkvæmd ef þær voru tilbúnar og klárar? Menn taka sérstaklega dæmi um lánsveðin. Hvers vegna var málið ekki klárað af fyrrverandi ríkisstjórn ef það var svona einfalt?

Ég held að menn verði að átta sig á því hvað þeir eru að segja og reyna að nálgast umræðuna af einhverri sanngirni. Menn höfðu fjögur ár en koma svo upp í ræðustól þegar þeir eru komnir úr ríkisstjórn og segja: Það var hægt að kippa þessu í lag strax. Hvers vegna notuðu þeir ekki árin fjögur? Hafa menn þá hugmynd um orðið „strax“ að það geti spannað heil fjögur ár? Ég spyr í ljósi þeirrar umræðu sem það ágæta orð hefur fengið á undanförnum vikum í fjölmiðlum og í þinginu.

Herra forseti. Mig langar jafnframt að benda fulltrúum stjórnarandstöðunnar vinsamlega á að það liggja fyrir ýmis gögn um það hvað þessi ríkisstjórn stendur fyrir. Það fyrsta sem menn ættu að kynna sér er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að heimilin séu undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Í stjórnarsáttmálanum birtist okkur sú áhersla ríkisstjórnarinnar að taka á vandanum með markvissum aðgerðum sem er tilkominn af hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra lána sem leiddi af hruninu. Það er stóra markmiðið og menn skulu ekki halda því fram að við höfum hlaupist á brott frá því verkefni. Þetta er stóra verkefnið, að því vinnum við öll sem eitt og ég taldi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar ætluðu sér að taka þátt í því að finna réttu leiðirnar.

Þess vegna kemur mér mjög á óvart harður og í rauninni hæðinn tónn í orðum leiðtoga stjórnarandstöðunnar um af hverju ekki sé löngu búið að leysa þessi mál. Mér finnst það afskaplega einkennilegt. Til að því sé komið á framfæri átti samráð við stjórnarandstöðuna á síðasta kjörtímabili sér ekki síst stað í nefndum þingsins. Nefndir þingsins, og þá sérstaklega velferðarnefndin, tóku sig saman þegar þingmál komu frá ríkisstjórninni, settust yfir þau í sameiningu og reyndu að finna betri útfærslur á þeim tillögum sem þar komu fram. Menn skulu aðeins anda með nefinu vegna þess að hér sitja menn í þingnefndum úr öllum flokkum og munu hafa fullt umboð til þess að koma fram með skoðanir sínar á þeim málum sem koma út úr því starfi sem hæstv. forsætisráðherra var að lýsa og koma þannig að málunum.

Þannig var mér boðið að taka þátt í að leysa skuldavanda heimilanna í tíð fyrri ríkisstjórnar og það er svo sannarlega svo að við vinnum áfram saman í nefndum þingsins á þessu kjörtímabili. Það get ég fullyrt. Ég held að þeir sem sitja í nefndum þingsins geti ekki afneitað þeirri staðreynd að við vinnum saman þar.

Aftur að stjórnarsáttmálanum. Í honum kemur fram að ríkisstjórnin haldi þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð. Það stendur í stjórnarsáttmálanum þannig að það þarf ekkert að vera að spyrja þeirrar spurningar hér og eyða þessari ágætu umræðu í að velta því fyrir sér hvort það sé í skoðun eða ekki.

Jafnframt kemur fram í stjórnarsáttmálanum að sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verði skipuð og búið er að gera það. Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að hún muni skila af sér á þessu ári. Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum og menn hefðu getað sparað sér ýmsar spurningar með því að lesa hann.

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að menn þyrftu að átta sig á stöðu einstakra lántakenda og stöðu skuldara til þess að geta tekið einhverjar ákvarðanir um hvað eigi að gera. Já. Ég hef ekki tölu á því hversu oft á síðasta kjörtímabili ég stóð í þessum ræðustól og óskaði eftir því að ríkisstjórnin hefði forgöngu um að afla upplýsinga um hver vandinn væri í raun og veru, ég hef ekki tölu á því. Menn reyndu að leggja fram frumvörp til að afla þeirra gagna vegna þess að okkur leið, hvort sem við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu, eins og við værum að fiska í gruggugu vatni þegar við vorum að leita að leiðinni til að leysa skuldavanda heimilanna, af því að við höfðum ekki upplýsingar um hver staðan var.

Hver er það svo sem kemur fram með frumvarp til að afla þessara upplýsinga? Það er núverandi ríkisstjórn. Það var Hagstofumálið sem við samþykktum í september. Það hafði kosti og galla en það hafði þó þann kost að þar settum við fram að safna saman upplýsingum til þess að vera komin með það á einn stað, kortlagningu á verkefninu. Hvers vegna var tíminn ekki nýttur betur á síðasta kjörtímabili til að afla þeirra upplýsinga?

Ég man eftir því að þingmenn úr stjórnarliðinu þáverandi komu upp í þennan stól og sögðu að það þyrfti engar frekari upplýsingar. Ef menn hefðu tekið ákvarðanir byggðar á traustum upplýsingum á síðasta kjörtímabili til að leysa þetta stóra verkefni værum við ekki að ræða það í dag. Þannig er það. Menn þurfa að taka það til sín, þetta var ekki nógu vel gert. Ég ber líka ábyrgð á því. Ég átti þetta samtal og þetta samráð við fyrrverandi ríkisstjórn af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að hluta til. Ég hefði bara átt að vera frekari þótt sumir segi að ég sé alveg nógu frek. Við hefðum þurft að koma þessu í gegn. Þannig er það. Það hefur núverandi ríkisstjórn gert og við munum einfaldlega byggja á raunhæfum upplýsingum og hafa þá eitthvað til að standa á.

Það var enginn sem var duglegri í því að kalla eftir þessum upplýsingum en hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég get fullyrt að hann mun líka standa vaktina á þessu kjörtímabili svo að við tökum ákvarðanir á grundvelli nægilegra upplýsinga. Þetta er það sem við erum að gera og við munum síðan ræða þetta nánar.

Herra forseti. Nú ætla ég að víkja að því sem ég ætlaði að segja í þessari ræðu. Það er að til að leysa skulda- og greiðsluvanda íslenskra heimila er auðvitað lykilatriðið að tryggja fólki möguleika á að stunda arðbæra atvinnu og gefa því þannig tækifæri til þess að vinna sig sjálft út úr sínum vanda, auka tekjur sínar, hafa meira á milli handanna um hver einustu mánaðamót. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Það er hægt að gera það í gegnum skattkerfið og það er að sjálfsögðu lykilatriði að stjórnvöld standi fyrir aðgerðum til þess að bæta umhverfi íslenskra fyrirtækja svo að þau geti vaxið og dafnað.

Við þurfum að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Við þurfum að stuðla að efnahagslegum stöðugleika, það er stóra verkefnið okkar allra, sama í hvaða flokki við erum. Við þurfum að afnema gjaldeyrishöftin. Við þurfum að sýna ábyrgð og bæta opinberan rekstur. Við þurfum að fara yfir öll atriði ríkisbúskaparins, allan rekstur ríkisins og leita leiða til þess að hagræða til að fá meira fyrir það fé sem ríkið eyðir í einstök verkefni og til að tryggja að neytendurnir, íslenskur almenningur fái bestu þjónustu sem völ er á fyrir skattféð sem þeir greiða inn í ríkissjóð. Við þurfum að halda vel utan um budduna og það er það sem þessi ríkisstjórn leggur áherslu á. Við þurfum jafnframt að tryggja grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og við gerum það með því að þora að endurskoða það sem við erum að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram markvissar tillögur varðandi skuldavanda heimila í síðustu kosningabaráttu. Það kemur fram í plagginu sem allir eiga að vera búnir að lesa fyrir þessa umræðu, þ.e. stjórnarsáttmálanum, að hægt er að fara í að leiðrétta vegna verðbólguskotsins áranna 2007–2010, bæði með því að fara í beina niðurfærslu höfuðstóls og einnig með skattalegum aðgerðum. Okkar tillögur snerust um skattalegar aðgerðir. Mig langar til þess að hvetja þingmenn — þeir voru margir hverjir á síðasta kjörtímabili, sama í hvaða flokki þeir voru, svolítið skotnir í séreignarsparnaðarleiðinni, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, ég man eftir því að hann var skotinn í þeirri leið. Engu að síður tók fyrrverandi ríkisstjórn þá hugmynd ekki upp, hún var ekki í pípunum. Það hefði verið hægt að gera hefðum við haft samráðið það náið að líka hefði verið hægt að hlusta á tillögur frá okkur sem sátum þá í stjórnarandstöðunni. Það hefði kannski betur verið gert, þá værum við ekki í jafnmiklum vanda og við erum í dag. En það að hvetja almenning til að spara á að vera sú hugsun sem við erum öll með í kollinum þegar við erum að leita leiða til að bæta stöðu íslenskra heimila.

Sparnaður er lykillinn að því að bæta stöðu íslenskra heimila til lengri tíma. Það getum við gert með skattalegum aðgerðum. Við höfum lagt fram tillögur þess efnis. Við lögðum fram tillögur þess efnis á síðasta kjörtímabili og það er svo sannarlega í stefnuskrá okkar og það er svo sannarlega talað um það í stjórnarsáttmálanum að hægt sé að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 með skattalegum aðgerðum. Ég trúi því að verið sé að skoða þær leiðir í þeim hópum sem forsætisráðherra fjallaði um í sinni ágætu skýrslu um stöðu málanna.

Það er rétt sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í ræðu sinni að hópurinn sem keypti rétt fyrir hrun liggi enn óbættur hjá garði. Þetta er yfirlýsing leiðtoga Samfylkingarinnar, flokksins sem leiddi síðustu ríkisstjórn. Hann segir að þeim hafi ekki tekist að bæta stöðu þessa hóps. Það er stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna og það er það sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að gera.