143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður en er samt eiginlega engu nær. Ég hefði, ég segi það til að ráðstafa tímanum hér, frekar viljað fá þessar umræður þegar fyrsta nefndin mun skila sínu verki síðar í þessum mánuði. Það kom fram á fundi þingflokksformanna, þegar okkur var tilkynnt um þessar umræður, að engra tíðinda væri í sjálfu sér að vænta í þessum umræðum. Ég sakna þess að sjá enga ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þinginu nú í þessum umræðum.

Það er ágætt að fá þetta yfirlit frá forsætisráðherra en eins og ég segi þá held ég að þetta séu allt upplýsingar sem hafa legið fyrir.

Það sem ég vildi segja í þessu máli kom fram og kristallaðist skýrt í ræðu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur sem mér fannst setja fram ákaflega mikilvægar spurningar og hugleiðingar. Ég þakka þingmanninum sérstaklega fyrir það. Það er svo gott þegar við komum okkur upp úr þessu „pingpongi“ sem einkennir svo oft umræðuna þar sem fólk er alltaf að ásaka hvert annað. Mér finnst þetta alveg gríðarlega leiðinlegt og þreytandi. Mig langar hreinlega að hverfa úr líkamanum þegar þannig umræða byrjar hér í þingsalnum. Hún gagnast ekki neitt. Það gagnast ekki að vera alltaf að benda hvert á annað. Þá erum við sem þingmenn lýðræðisins farin að þvælast hvert fyrir öðru.

Ég er sammála hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur þegar hún segir að við þingmenn höfum aðgengi og tækifæri til að hafa áhrif á tillögur ríkisstjórnarinnar þegar þær koma, tillögur forsætisráðherra, hér í þingið. Mér finnst þetta mikilvægt því að við megum ekki tala niður þau tækifæri sem við höfum sem þingmenn til að finna þverpólitíska sátt saman. Við megum ekki tala það niður, það er þreytandi, það er gamaldags og það er tilgangslaust.

Ég fagna því líka að í ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur kom mjög skýrt fram að það er einlægur vilji stjórnarliða að við höldum áfram að þróa þá vinnu sem hófst hér eftir hrun, sem er eitt það jákvæðasta sem gerðist eftir hrun, að þingið fór að marka sér miklu skýrari stöðu gagnvart lagasetningu. Það hætti að taka því sem sjálfsögðum hlut að vera stimpilstofnun. Það eru mikil tíðindi í sjálfu sér. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. forsætisráðherra til dáða.

Ég er sammála því að það er mjög mikilvægt að kortleggja stöðuna. En ég vil ítreka spurningu sem mér finnst harla mikilvæg: Hverjir eiga að fá skuldaleiðréttingu? Er það þannig að manneskja sem ákvað að taka áhættu með húsnæði sitt og taka veð — það var þannig þegar þessi bóla byrjaði; ég gleymi þessu tímabili aldrei, ég var leigjandi og leigan hækkaði gríðarlega, á ég ekki að fá neina leiðréttingu eða allir þeir sem eru á leigumarkaði? Af hverju fá þeir enga leiðréttingu? Hvað með allt fólkið, sérstaklega gamalt fólk og innflytjendur, sem hafði lagt mikið fyrir, sparaði og gerði ekki neitt, sparaði og sparaði — og svo þegar hrunið kom, og sumir höfðu verið lokkaðir inn í Sjóð 9 og aðra sambærilega sjóði, tapaði það gríðarlega miklu af sparnaði sínum? Af hverju fær það fólk enga leiðréttingu?

Það þarf að kortleggja þetta. Þetta snýst ekki bara um þessi orð „heimilin í landinu“. Það eru mörg heimili sem þurfa enga leiðréttingu, vilja það ekki einu sinni.

Kortlagningin er mjög mikilvæg. En almennt séð á maður ekki að vera að lofa einhverju sem maður veit ekki hvað er. Lagt var af stað, sérstaklega hjá Framsóknarflokknum, og hlutum lofað sem augljóst er að ekki er búið að kortleggja. Mér finnst hættulegt að lofa á þennan hátt af því að þá skapar maður væntingar um að búið sé að undirbyggja loforðið með kortlagningu.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju voru þessi loforð sett fram án þess að búið væri að kortleggja nákvæmlega hvernig ætti að efna þau? Það truflar mig. Það er alveg ljóst, miðað við það sem kemur síðan í ljós í þessu ferli, að fara þarf í ítarlegri vinnu í kringum þetta allt saman — ég geri mér grein fyrir að þetta er mjög flókið, en það er sérstaklega flókið út af því að ekki liggur fyrir hverjir eigi rétt á að fá skuldaleiðréttingu. Það er grunnspurningin og henni verður að svara hér. Það er algjör grunnspurning í þessu máli.

Ég ætla að biðja hæstv. forsætisráðherra að fara aðeins betur yfir tímalínurnar, hvenær fólk getur átt von á því að fá þessar leiðréttingar. Ég hef heyrt að fólk sé hætt að borga af lánunum sínum af því að það hélt að það fengi leiðréttingar nú í haust. Hvenær á fólk að fá þessar leiðréttingar og hverjir eiga að fá þær? Það er grundvallarspurning sem krefst svara. Ef hæstv. forsætisráðherra getur ekki svarað þessu, hvenær getum við átt von á að hann svari þessu? Hvenær liggja þessar upplýsingar fyrir? Þetta er mjög mikilvægt. Hún er mikil ábyrgð þeirra þingmanna sem tóku þátt í að lofa hlutum sem hugsanlega er ekki hægt að efna. Og ef ekki er hægt að efna það verður fólk að fá að vita það strax, áður en staða þess verður erfiðari.

Það er mjög margt sem lítur vel út í þessum tillögum hæstv. forsætisráðherra. Ég er ekki að gera lítið úr því sem lítur út fyrir að vera einlægur vilji til að rétta stöðu heimilanna í landinu, en það vantar skýrleika. Það er svo mikilvægt að það sé meiri skýrleiki í kringum þessi mikilvægu mál áður en við stefnum í enn frekara óefni.